135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Gangur mála á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum er mjög alvarlegur og ég held að ráðstafanir íslensku ríkisstjórnarinnar hafi ekki haft mikil áhrif á það að vísitalan í Hong Kong féll í morgun um 8,6% heldur séu einhver önnur öfl þar að verki. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Markaðir falla alls staðar og það mun hafa áhrif á markaðinn á Íslandi, á stöðu lífeyrissjóðanna og stöðu ríkissjóðs. Hins vegar verða menn að hafa í huga að allar vísitölur hafa hækkað mjög mikið á síðustu tveim, þrem árum og enn sem komið er hefur fallið ekki verið meira en sem nemur hækkunum eins eða tveggja ára. Þetta er ekki þannig að menn þurfi að fara á taugum yfir þessu, þetta er bara eitthvað sem fer upp en kemur aftur niður.

Ef við horfum á Íslandi þá er íslenskt atvinnulíf mjög kraftmikið og það er sterkt og það hefur sýnt sig undanfarin ár að það er mjög öflugt. Ég held að við Íslendingar þurfum ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af íslensku atvinnulífi ef ytri aðstæður valda okkur ekki enn meiri óskunda.