135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[17:22]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Í stuttri lokaræðu vil ég þakka þeim þingmönnum sem tóku til máls í þessari mikilvægu umræðu og komu fram með enn fleiri rök þess efnis að rétt sé að staðsetja björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Vil ég vil þakka innlegg þeirra í málið. Ekki síst vil ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hafa verið viðstaddur umræðuna, sem er ekki reglan í þinginu þegar þingmenn flytja þingsályktunartillögur, síður en svo. Ég vil að það komi fram hér að ég lýsi yfir mikilli ánægju með áhuga hæstv. ráðherra á þessu máli rétt eins og ég fann þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, m.a. á árinu 2006, hversu mikinn metnað og áhuga þáverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, sem er enn dómsmálaráðherra í dag, hafði á þessum mikilvægu málum. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi haldið mjög vel á spilunum í þeim efnum og þó að hann sitji ekki í eins góðri ríkisstjórn og áður þá held ég að hann hafi samt náð að viðhalda þeim anda og metnaði sem þá ríkti.

Ég held að það sé mjög sögulegt að heyra að hæstv. ráðherra vilji tryggja það með einhverjum hætti að björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri. Það er mjög mikilvæg yfirlýsing og við munum halda áfram að vinna að þessu máli í góðri samvinnu eins og við áttum í tíð síðustu ríkisstjórnar og mikilvægt að heyra að þingmenn, óháð hvar í flokki þeir standa, styðji þessa þingsályktunartillögu. Þetta mál er síður en svo nýtt af nálinni. Við erum ekki að finna upp hjólið í þessari umræðu, þetta er búið að vera í umræðunni í mörg ár. En það er mjög mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra skuli koma hér upp og lýsa yfir jákvæðni í garð þessa máls, því að þingið þarf að vinna að þessu máli í samstarfi við ráðuneytið í framhaldinu, hvernig við útfærum tillöguna. Ég vonast til, miðað við undirtektir hér, að við getum samþykkt þessa þingsályktunartillögu og afgreitt hana frá Alþingi á vorþinginu miðað við góðar undirtektir hæstv. ráðherra.