135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég held að þetta mál hafi farið í hinn besta farveg og það sé nú kominn á þessi samningur við bæjaryfirvöld og Minjavernd og húsið öðlist þá þann sess í bæjarmyndinni eins og því ber.

Það er rétt að halda því til haga að auðvitað þarf ríkið, hvort sem það eru ríkisstofnanir eða ríkið, að passa upp á að halda við sínum húsum. Ríkið á annað hús á Seyðisfirði og það er sjúkrahúsið gamla sem þarf að finna hlutverk og komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig því verður við haldið og hvernig það öðlast líf aftur. Þó svo að við höfum gaman af að horfa á falleg hús þá verða þau að hafa líf í sér til að skila sínu hlutverki áfram í samfélaginu.

Ég held, eins og ég segi, að það sé mjög gott að þetta samkomulag náðist og mjög til fyrirmyndar hvernig staðið var að því og auðvitað var löngu búið að gera þessa úttekt hjá Minjavernd. En viðræðurnar um málið höfðu einhverra hluta vegna strandað. Ég dreg það fram að þetta er allt á ábyrgð ríkisins vegna þess að það er ríkið sem á þessar eignir og hvort sem það er ríkið eða aðrir þá eiga menn að halda sínum eignum við og passa upp á þær.

Þessi húsaarfur Seyðfirðinga er auðvitað tækifæri Seyðfirðinga til þess að byggja upp ferðaþjónustu sem ég held að sé verið að gera núna af miklum myndarskap og mikil hugmyndaauðgi ríkir þar. Því er eðlilegt að (Forseti hringir.) ríkið komi þar að með því meðal annars að passa upp á sínar húseignir.