135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

efling íslenska geitfjárstofnsins.

312. mál
[15:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Tillaga til þingsályktunar um eflingu íslenska geitfjárstofnsins er sannarlega tímabær. Ég vil eindregið taka undir þau orð sem hv. þingmenn hafa látið falla um mikilvægi þess að standa vörð um íslenska geitfjárstofninn og gera þeim sem axla þá ábyrgð kleift að stofninn eflist, fái öryggi og verði varðveittur til framtíðar.

Hér hafa verið rakin margvísleg rök fyrir því að svo beri að gera. Bent hefur verið á fjölbreytni í atvinnulífi, nefndar hafa verið sértækar afurðir sem tengjast geitum, bæði mjólk og kjöt. Það hefur verið nefnt hvernig geitfé auðgar dýrasamfélagið okkar og hefur aðdráttarafl fyrir unga sem aldna. Svo má áfram telja.

Einnig má leggja áherslu á ábyrgð okkar, ábyrgð íslensku þjóðarinnar, ábyrgð íslenska ríkisins á því að varðveita erfðaefnið sem felst í íslensku geitinni. Við erum þar m.a. bundin af alþjóðasáttmálum sem við höfum skrifað undir, bæði um varðveislu erfðaefnis og einnig um líffræðilegan fjölbreytileika. Því má segja að ef við ekki grípum þegar í stað til aðgerða til að verja og vernda stöðu þessa stofns séum við í raun að brjóta alþjóðasamþykktir sem við höfum gerst aðilar að. Ég tel út frá öllum forsendum þessa máls, bæði hvað lýtur að geitastofninum sem slíkum, ábyrgð okkar og hlutverki og einnig gagnvart þeim einstaklingum sem leggja sig alla fram við að viðhalda þessum dýrum, að okkur beri skylda til að grípa þegar í stað til aðgerða.

Það varð slys í haust sem verður að skrifast á ábyrgð hins opinbera, að hafa ekki verið á verði. Því ber skylda til að gæta þess að geitfjárstofninn hverfi ekki. Okkur ber skylda til þess en það slys, þegar geiturnar voru felldar í Skagafirði, má ekki endurtaka sig.

Ég tek undir þau orð sem fallið hafa um þetta mál og er reiðubúinn að leggja mitt af mörkum til þess að flýta ferð þessa máls í gegnum þingið. Ég tel reyndar að ráðherra beri lagaskylda til að grípa inn í og tryggja stöðu þeirra sem búa með geitfé og leggja vinnu og allt sitt í að halda í stofninn og hið dýrmæta erfðaefni sem þar er. Honum ber þegar lagaskylda til að grípa inn í og tryggja stöðu og verndun geitfjárins.

Eins og hv. þingmenn hafa komið hér inn á er það bæði siðferðisleg og lagaleg skylda okkar að grípa til aðgerða. Þetta skulu, frú forseti, verða mín hvatningar- og lokaorð og ég heyri það á þingmönnum sem hafa tekið til máls að við munum standa saman um að gripið verði til aðgerða til að tryggja stöðu íslenska geitfjárins.