135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:48]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um tíma í þessari umræðu var ég ekki klár á því hvort stjórnarandstaðan væri fylgjandi því að af þessari stefnubreytingu yrði, þ.e. að færa störf út á land í stað þess að byggja þau áfram upp hér í Reykjavík eins og verið hefur. Mér hefur fundist svona eftir því sem á umræðuna hefur liðið að stjórnarandstaðan sé samt þessu fylgjandi þrátt fyrir þau orð sem hér hafa … (Gripið fram í: Fylgjandi.) fylgjandi því að færa störf út á land því að hér er um grundvallarbreytingu að ræða. (Gripið fram í.) Hér er um grundvallarbreytingu að ræða sem tekur tíma. Hvað gerði Framsóknarflokkurinn í tólf ár í ríkisstjórn? Hvað gerði hann í tólf ár í ríkisstjórn við að færa störf út á land (BjH: Flutti allar landbúnaðarstofnanir.) meðan þeim fjölgaði í Reykjavík langt umfram það sem gerðist annars staðar? Hvað gerði Framsóknarflokkurinn? Hvernig stendur á því að menn koma upp núna með umræðu af þessum toga?

Það sem hér skiptir einnig máli er að það þarf að huga að kjarasamningum, hér þarf að huga að lagaumhverfi og hér þarf að huga að mörgum þáttum því að hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða hjá stjórnvöldum og samkvæmt henni verður unnið. Þetta er sú stefna sem Samfylkingin fór fram með í kosningunum og að henni verður unnið en það verður ekkert kastað til höndunum, þetta verður unnið vandlega. Eins og fram hefur komið hefur þetta verkefni verið sett af stað með 40 stofnunum sem heyra undir 11 ráðuneyti sem eiga að vinna með í þessum málum. Ef menn halda að það sé eitthvert grín, að það sé verið að kasta til höndum eða svíkja gefin loforð þá er með ólíkindum hvernig menn leyfa sér að tala um þessi mál. Það er alveg klárt að við ætlum að vinna að þessum málum og við höfum líka þá hugmynd að það starf sem hér var rætt áðan verði staðsett þar sem það kemur þjóðgarðinum best og ég hef alltaf litið á það þannig að það verði á Hornafirði.