135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:25]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra bregst vel við og víkur sér undir ábyrgð en ekki undan ábyrgð eins og er nú kannski algengara í íslenskri pólitík. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því og ég tek hans skýringar alveg gildar í þeim efnum, að hér sé um sameiginlega ábyrgð á þessu máli að ræða.

Ég sleppti því reyndar að lesa hér upp kafla úr ræðu frá fyrri umræðu um þetta mál, einmitt um þetta ákvæði sem lýsti afstöðu Samfylkingarinnar til þess hvernig eigi að beita bráðabirgðalagavaldinu og er að finna í ræðu Bryndísar Hlöðversdóttur sem hér sat á þingi um tíu ára skeið. Ég bendi bara hæstv. iðnaðarráðherra á ræðuna þannig að hann kynni sér efni hennar.

Ég staðfesti að það er réttur skilningur hjá ráðherranum að eins og ég hugsa þetta ákvæði þá muni stjórnarskrárbreytingar sem Alþingi hefur samþykkt ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu og verða þar endanlega afgreiddar þannig að það þurfi ekki að koma aftur til Alþingis að nýju og það þurfi ekki að vera alþingiskosningar á milli. Einfaldlega verður það að vissu leyti samspil Alþingis og þjóðar með breytingar á stjórnarskránni. Alþingi hefur frumkvæðið. Það tekur upp breytingarnar, samþykkir þær breytingar hverju sinni sem það kemst að niðurstöðu um og leggur þær fyrir þjóðina sem segir annaðhvort já eða nei.