135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

efnahagsmál.

[10:44]
Hlusta

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góð svör. Ég vil leggja áherslu á að miklar vonir eru bundnar við að atvinnulífið verði örvað með öllum þeim möguleikum sem til eru og skattaumhverfi fyrirtækja verði gert sem hagstæðast. Það er mikilvægt að geta haldið áfram framkvæmdum og fjárfestingum og fyrirtækin sjái að þau geta látið hjólin snúast áfram. Ekki síst tel ég að skattalækkanir á fyrirtæki geti verið stórt skref í átt að sátt á vinnumarkaði og geti greitt fyrir komandi kjarasamningum.

Athyglisvert verður að fylgjast með framvindu mála hvað það varðar að reyna að auka samkeppnishæfni Íslands til að laða til sín fjármálafyrirtæki svo að hér verði áfram blómleg fjármálastarfsemi. Við viljum ekki að fyrirtækin í landinu þurfi jafnvel að fara annað, þangað sem umhverfið er hagstæðara. Við viljum halda þeim hér og við viljum fá hingað enn fleiri öflug fyrirtæki. Í samkeppninni við önnur lönd vegur skatthlutfallið á fyrirtækin afar þungt.