135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

flug herflugvéla.

[10:47]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku voru fluttar fregnir af því í norrænum fjölmiðlum, m.a. í danska ríkisútvarpinu og færeyska blaðinu Sósíalnum, að á síðustu þremur árum hafi það gerst tíu sinnum að F16 orrustuþotur danska hersins hafi farið of nærri farþegaþotum á flugi. Fjögur þessara tilvika áttu sér stað á síðasta ári.

Það er óþarft að fjölyrða um þá hættu sem getur skapast af því fyrir áhafnir og farþega í almennu flugi þegar flugmenn á orrustuþotum, sem flogið geta á 2.000 kílómetra hraða á klukkustund, virða ekki nauðsynlegar öryggisreglur á flugi.

Fregnir þessar ættu að vekja sérstaka athygli Íslendinga enda hafa íslensk stjórnvöld verið fús til að leyfa erlendum herjum að stunda flugæfingar í og við landið. Slíkar æfingar, og þá einkum lágflugsæfingar, hafa mætt mikilli andstöðu hér á landi, m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu.

Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi: Valda þessar fregnir hæstv. utanríkisráðherra áhyggjum í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu missirum kappkostað að bjóða dönskum herþotum og vélum annarra NATO-ríkja til æfinga og eftirlitsflugs við Ísland? Og í öðru lagi: Hyggst utanríkisráðuneytið fara fram á skýringar frá dönskum yfirvöldum vegna þessa máls?