135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:13]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að fram fari umræða í löggjafarþinginu, í utanríkismálanefnd eða í þessum sal um tímamótatilskipanir sem eru að koma inn á hið Evrópska efnahagssvæði. Ég nefndi í máli mínu fyrr í dag útvíkkun losunarkvótakerfisins yfir flugsamgöngur og síðan væntanlega ál í framhaldinu. Hér hefur verið rætt um þjónustutilskipunina og ég held að það sé full ástæða til þess að við förum yfir þessi grundvallarmál, enda fráleitt að við sem löggjafaraðilar á Íslandi ræðum ekki þessi mál fyrr en þau eru frágengin einhvers staðar úti í heimi. Það minnir á svolítið sérkennilega afstöðu Bjarts sem vildi aldrei taka þátt í hreppsmálum og sagði að þau mál væru bara fyrir fyrirmenn og hafði ekki áhuga á að skipta sér af sveitarmálum af því að það væri bara fyrirfólkið sem ætti að sinna þeim.

Varðandi ummæli hv. þingmanns um hversu aðþrengjandi Evrópusambandið er þá held ég að þessi sjónarmið séu oftar en ekki byggð á nokkrum misskilningi, eins og við erum búin að ná í þessari umræðu að leiðrétta hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni, sem hefur farið með fleipur í hverri Morgunblaðsgreininni á fætur annarri um það mál. Það er ósköp einfaldlega þannig að grundvallarskuldbinding sem aðildarríki Evrópusambandsins takast á hendur er sú sama og við tókumst á hendur með EES, sem er með öðrum orðum bann við mismunun, þ.e. við getum ekki veitt borgurum og fyrirtækjum annarra ríkja lakari kjör og lakara starfsumhverfi en okkar eigin. Það er í grunninn skuldbindingin.

Síðan er sameiginlegur ytri tollur sem Evrópusambandið hefur en sambandið hefur mun fleiri og víðtækari fríverslunarsamninga en Ísland. Þegar allt er lagt saman mundu viðskiptakjör íslenskra fyrirtækja á mörkuðum utan Evrópusambandsins batna við aðild frá því sem nú er. (Forseti hringir.) Þetta er einfaldlega staðreynd sem vert er að hafa í huga.