135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:37]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú allt annað en auðvelt að svara andsvari sem þessu eða koma upp eftir ræðusnilld Eyjamannsins, en ég vil þó aðeins víkja að því. Máski hefði ég betur orðað það sem svo að ég hefði ekki mestar áhyggjur, kannski sagði ég að ég hefði engar áhyggjur og það er fullmikið sagt, en ég hef ekki mestar áhyggjur af hag sjávarútvegsins innan Evrópusambandsins ef til þess kæmi — sem ég vona að verði ekki — að við gengjum í það, því ég hef þá skoðun að það sé í rauninni ekki mjög raunhæft markmið til langrar framtíðar að einangra atvinnuveg, sem er í hlutafélögum, við þjóðerni eigenda. Ég held að til lengri tíma litið eigi flæði fjármagnsins að vera nokkuð frjálst, einnig í sjávarútvegi, og hef alla trú á því að við Íslendingar getum haldið þar forustu. En eins og staðan er núna held ég að við eigum samt að halda fast í þau sérréttindi, svo ég taki af öll tvímæli með það þá eigum við að halda í þau sérréttindi sem við höfum með EES-samningnum og ekki að semja þar af okkur í neinu bráðræði.

Almennt held ég að það sé mikilvægt og ekki síst í þessari utanríkisumræðu að við gætum þess að við förum ekki að snúa hlutum þannig á haus að við sem höfum varað við hugmyndum um að Íslendingar gangi inn í Evrópusambandið, séu sagðir einangrunarsinnar. Þvert á móti kem ég til þessarar umræðu vegna þess að ég er alþjóðasinni. Og af því að Bjartur í Sumarhúsum er nú mjög dreginn hér til umræðunnar sem bókmenntapersóna sem allir þekkja og á að mörgu leyti heima í umræðunni má draga inn í hana fleiri bókmenntapersónur. Mér finnst stundum eins og hér svífi líka yfir vötnunum Bör Börsson.