135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

GSM-samband og háhraðatengingar.

[15:18]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni er eitt af því sem margir sem þar búa bíða eftir með mikilli óþreyju, sérstaklega útbreiðslu GSM-símanna og háhraðatengingarinnar. Strandasýsla er eitt af þeim svæðum þar sem útbreiðslan er stopul, svo að ekki sé meira sagt. Nú bregður svo við að Vodafone hefur sett upp sendi við Skagaströnd sem nær mjög langt, bæði út á miðin og í byggðirnar við Húnaflóa, þannig að nú er mjög víða samband þar sem ekki var áður — en aðeins hjá þeim sem skipta við Vodafone því að notendur Símans geta ekki nýtt sér þessar framfarir.

Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann viti til þess að Síminn sé að ganga frá reikisamningum við Vodafone þannig að notendur Símans geti nýtt sér þessar framfarir og það áform Vodafone að reisa 50 nýja senda um land allt til viðbótar þessum eina.

Í öðru lagi er ástæða til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað líði útbreiðslu GSM-sambands á vegum Fjarskiptasjóðs sem honum var falið að vinna að ásamt útbreiðslu á háhraðanetinu. Margir eru orðnir býsna óþreyjufullir eftir því að eitthvað gangi í þeim efnum. Auðvitað hafa náðst fram ágætir áfangar en verkinu miðar ákaflega seint að mati margra sem bíða eftir þessum þörfu framförum, virðulegur forseti.