135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

geislavarnir.

353. mál
[14:43]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/2002, um geislavarnir. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að um lögbundna endurskoðun er að ræða en þegar lögin voru samþykkt á árinu 2002 var gert ráð fyrir að þau yrðu endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Þegar litið er yfir frumvarpið má segja að meira sé um tæknilegar breytingar en pólitískar breytingar og þegar hv. heilbrigðisnefnd tekur málið til umfjöllunar mun hún leita til sérfræðinga til þess að leiða sig í gegnum frumvarpið.

Greinargerðin gerir reyndar ágætlega grein fyrir þessum breytingum og á hverju er verið að byggja. Ef maður vill samt sem áður leita að pólitík í frumvarpinu má segja að með því sé leitað leiða til að einfalda ferla, draga úr eftirliti og auka ábyrgð notenda á slíkum tækjum sem varða geislavirk efni. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einfaldara Ísland og að draga úr reglukerfi þar sem nokkur möguleiki er á því.

Ljóst er að tækniþróun og aukin þekking á verksviði stofnunarinnar hefur leitt til þess að hægt er að innleiða ný vinnubrögð á ákveðnum sviðum hennar en einnig er tekið mið af reglum Evrópusambandsins um geislavarnir við samningu frumvarpsins og varðandi framkvæmd geislavarna. En þó að þessir þættir séu ekki hluti af samningi við Evrópska efnahagssvæðið eru þessi viðmið samt sem áður tekin upp til þess að gæta samræmis við löndin í kringum okkur í þessu máli, sem ég tel vera mjög skynsamlegt.

Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra er einnig kveðið á um að setja reglur um útflutning á geislavirkum efnum en slíkar reglur hafa ekki verið til staðar. Í núgildandi lögum hefur eingöngu verið horft til innflutnings á geislavirkum efnum. Nauðsynlegt þykir að koma slíkum reglum á í öryggisskyni og segir það kannski meira en margt annað um það hver þróunin hefur verið í þessum málum og á þessu sviði á síðastliðnum fimm árum þar sem ekki var einu sinni gert ráð fyrir því að geislavirk efni væru til útflutnings heldur eingöngu til innflutnings.

Í sjálfu sér er ekki mikið meira um frumvarpið að segja en eftir 1. umr. hér í dag mun það fara til hv. heilbrigðisnefndar sem mun skoða það ítarlega.