135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:55]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég furða mig á þessari umræðu af hálfu hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Kvótakerfi var komið á í mjólkurframleiðslu hér á landi um árabilið 1980. Þá voru árin 1977, 1978 og 1979 höfð til viðmiðunar á þeim kvóta sem bændur fengu.

Ástæða þess að settur var kvóti á mjólkurframleiðslu var sú að við framleiddum mun miklu meira af mjólk og mjólkurafurðum en innanlandsmarkaður tók við. Áður höfðu verið niðurgreiðslur þar sem ríkissjóður greiddi niður óarðbæra framleiðslu, getum við sagt, sem lítið verð fékkst fyrir. Þess vegna var kvótakerfi komið á, sem var gott á þeim tíma. Þar hafa væntanlega framsóknarmenn lagt hönd á plóginn öll árin meira og minna.

Nú eru málin þannig að það hefur lengi tíðkast framsal á mjólkurkvóta. Bændur hafa hagrætt. Kvótinn hefur færst til færri aðila. Búin hafa stækkað og eru hagkvæmari. Það er mjög jákvætt. Við eigum að halda áfram á þeirri braut. Hins vegar er ljóst að verð á mjólkurkvóta, á þeim lítra sem menn eru að kaupa, er gríðarlega hátt. Það er ef til vill vegna þess að þetta hefur gerst á stuttum tíma og hagræðingarkrafan verið mjög mikil.

Það er augljóst og kemur fram í erindi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að þetta verð er mjög hátt og íþyngjandi fyrir bændur. Þess vegna er full ástæða til að leita leiða til að lækka þann kostnað sem kvótakaup eru þeim sem stunda mjólkurframleiðslu.

Ég minni á að við erum með kvótagreiðslur í annarri tegund landbúnaðar, (Forseti hringir.) sem er grænmetisframleiðslan. Þar er farin allt önnur og heilbrigðari leið. Þá leið ættum við að skoða.