135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:57]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mér fannst hálfómaklega vegið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessari umræðu. Ég sé ekki ástæðu til þess vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú sem endranær staðið þétt að baki bændum, ekki síst núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þannig að mér finnst nú hv. þm. Birkir Jón Jónsson gera fullmikið úr þeim orðum sem höfð voru eftir hæstv. sjávarútvegsráðherra í Morgunblaðinu. Hann segir þar einfaldlega að hann telji að hann sé tilbúinn að skoða hugmyndirnar en jafnframt sé ljóst að þetta hefði heilmiklar breytingar í för með sér og fyrst og fremst þyrfti að átta sig á þeim áhrifum sem þetta hefði til framtíðar.

Að því eigum við að huga að núna þegar endurnýja þarf mjólkursamninginn árið 2012, að mig minnir, þ.e. hvernig við viljum sjá landbúnaðarframleiðsluna til framtíðar, ekki síst mjólkurframleiðslu. Við eigum skoða þær hugmyndir sem fram koma, þessar eins og margar aðrar. Eins og ég sagði áðan hefur komið fram hjá Bændasamtökunum að þeir vilja feta sig í aðrar áttir. Það segir okkur að skoða verður hugmyndir þeirra og annarra í þjóðfélaginu. Auðvitað ætlum við að ná þjóðarsátt um landbúnaðarframleiðsluna þannig að allir geti unað býsna glaðir við niðurstöðuna.