135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sjúklingar eru vissulega aðalmálið. Starfsfólkið er líka aðalmálið og þegar níðst er á starfsfólki, láglauna- og millitekjuhópum, kvennastéttum sem allir gala hér um og gerðu í aðdraganda kosninga að bæta ætti kjörin hjá, þá er það líka aðalmálið.

Ég undra mig á þeirri vanþekkingu sem hefur einkennt þessa umræðu. Menn tala um störf læknaritara sem vélritun sem hægt sé að sinna hvar sem er. Þetta eru óstaðbundin störf var sagt. Nei, þetta eru einmitt störf sem skiptir máli hvar eru unnin eða hvar er umhyggja Alþingis fyrir persónuverndarsjónarmiðum? Skipta þau engu máli? Og svo tala menn um kreddur.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að horft sé til hags þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar, fá aðhlynningu og lækningu á spítölum. Við viljum huga að hagsmunum starfsfólksins og við viljum huga að hagsmunum þeirra sem greiða fyrir þessa þjónustu. Ég er sannfærður um að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er dýrari fyrir skattborgarann og þann sem greiðir fyrir þjónustuna. (Gripið fram í: Lestu …) Lestu Moggann, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það var ömurlegt að hlusta hér á talsmenn ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég sagði í upphafi máls míns að nú mætti ekki tala lengur um einkavæðingu, nú yrði að tala um einkarekstur. Engu að síður erum við að tala um fyrirtæki í lyfjaiðnaði sem ætla að hafa hag og hafa gróða af þessari starfsemi. En þarna slógu hjörtun í takt og hið pólitíska hjarta ríkisstjórnarinnar var ekki vinstra megin við miðju. Það eitt get ég sagt.

Hæstv. forseti. Varðandi yfirlýsingar (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra þá voru þær þess eðlis að það verður að verða framhald á þessari umræðu. Hann vísar (Forseti hringir.) ábyrgð á hendur stjórnenda sjúkrahússins, sömu aðila og (Forseti hringir.) hafa kvartað yfir því að fjársveltistefna ríkisstjórnarinnar sé að neyða það út í einkarekstur af þessu tagi. [Lófatak á þingpöllum]