135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

189. mál
[18:47]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir ágætisinnlegg í hana. Ég vil vekja athygli á orðum hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem var ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á sl. vori þegar ákvörðunin var tekin um að nýta sér heimildina til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Þá var það gert á grundvelli þessarar heimildar í lögum og í umræðunni kom fram að það mætti ekki selja hlutinn með beinum hætti til sveitarfélaganna heldur þyrfti það að fara í gegnum ferli einkavæðingarnefndar og bjóðast á þeim forsendum sem hún starfaði eftir.

Þetta var reyndar þveröfugt við þá umræðu sem áður hafði farið fram á Alþingi um Hitaveitu Suðurnesja því að heimildin til sölu á 15% hlut ríkisins hefur áður komið hér upp á Alþingi. Það var með líkum hætti og nú eða að það hlyti að vera eðlilegast að samið yrði við sveitarfélögin á Suðurnesjum sem eiga hinn hlutann um kaup á þessum 15% hlut ríkisins ef hann á annað borð yrði seldur. Þannig var sú umræða og ég minnist þess að ég hafði áður gagnrýnt við fjárlagaafgreiðslu að þessi heimild væri inni og þá var þetta lagt inn í umræðuna, að þetta yrði hvort eð er aldrei selt nema til þessara aðila. Ég held því að menn hafi hugsað það á þeim tíma.

Svo þegar til kastanna kemur er allt annað upp á teningnum og allt í einu er komið í gang ferli sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagðist sjálfur ekkert hafa gert sér grein fyrir að færi í gang með þessari samþykkt. Í útboðsskilmálunum var skýrt kveðið á um að opinberir aðilar, eins og aðrar opinberar veitur eða sveitarfélög, gætu ekki boðið í hlutinn og ásetningurinn var því alveg meðvitaður, þetta var meintur ásetningur af hálfu ríkisstjórnarinnar eða af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að þetta færi til einkaaðila til þess að ná fjármagni einkaaðila inn í orkugeirann með þessum hætti.

Þegar hv. þingmenn, þó að þeir séu í ríkisstjórn eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, segjast vonast til þess að það komi ekki til að þessu ákvæði verði breytt þá hygg ég að þeir geti staðið frammi fyrir nákvæmlega því sama og hv. þm. Guðni Ágústsson, að þetta fari í allt annan farveg en við var búist.

Mér er minnisstætt að fyrr í vetur óskaði Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, eftir fundi með fjármálaráðherra um það hvort ríkið gæti ekki leyst aftur til sín þennan 15% hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem þá var að hleypa orkumálunum í uppnám, og gerir enn, og þá var afstaða þáverandi meiri hlutans í Reykjavík sem samanstóð af Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Framsóknarflokknum, að aftur skyldi leitað viðræðna við forsætisráðherra um að ríkið leysti til sín 15% hlutinn. Einhverra hluta vegna varð forsætisráðherra aldrei við þessari beiðni þáverandi borgarstjóra, það ég veit, og umræðan komst ekki lengra.

Það er þess vegna að mínu viti mjög mikilvægt að þessi heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði felld niður og það sé ekki verið að láta þetta hanga hér yfir. Við vitum hver vilji Sjálfstæðisflokksins er, Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða orkugeirann, vill koma þessum hlutum í hendur einkaaðila og það er þá bara spurt hvenær hægri armur Samfylkingarinnar gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í þeim efnum og má sín þá kannski lítils þó svo að einstakir þingmenn þar séu á annarri skoðun.

Herra forseti. Ég legg því afdráttarlaust til að Alþingi felli brott þessa heimild sem er á fjárlögum um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjárlaganefndar.