135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þm. Bjarni Benediktsson erum í meginatriðum sammála um það sem ég vakti hér máls á. Þó kom kannski ekki fram í máli hans nákvæmlega svar við síðari hluta þess sem ég vakti athygli á og það er spurningin um það hvernig og á hvaða stigum Alþingi kemur að þessum málum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að tryggja að þingið komi fyrr að þeim málum sem hér um ræðir á vettvangi utanríkismálanefndar og þingmannanefndar EFTA sem fjallar um þessi samstarfsmál, EES-samninginn, og einnig jafnvel á vettvangi einstakra fagnefnda eftir málaflokkum. Ég kalla því enn eftir viðhorfum þingmannsins til þess.

Í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag sagði hæstv. forsætisráðherra að nú væri búið að setja á laggirnar sérstaka Evrópunefnd undir forustu tveggja þingmanna sem ættu að fjalla um Evrópumál og tengdi það, eins og ég skildi hann, tillögu í skýrslu Evrópunefndarinnar frá því í fyrra um að koma á samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um Evrópumál. Ég lít ekki svo á að sú nefnd geti komið í staðinn fyrir umfjöllun þingsins um tilskipanir Evrópusambandsins eða EES-mál vegna þess að það er nefnd sem er, eftir því sem ég fæ best séð, með miklu víðtækari skipan og þar sem alls konar hagsmunaaðilar fyrir utan þingið koma að og er þá væntanlega samráðsnefnd um þau mál. Hún er ekki eiginleg þingnefnd sem fjallar um það sem til þingsins heyrir, þ.e. samþykkt á tilskipunum eða búningur þeirra í þingsályktunar- eða frumvarpsform.

Ég kalla því enn eftir því að heyra frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni hvernig hann sér þetta gerast hér í þinginu.