135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir þessa fyrirspurn. Ástæðan fyrir því að málið var til umfjöllunar í samgöngunefnd nú nýverið er sú að samgöngunefnd hefur í anda breytinga á þingsköpum ákveðið að taka upp ný og breytt vinnubrögð, hafa frumkvæði að því að fá inn til sín kynningar á stórum málum, og sú sem hér stendur er áhugamanneskja um jarðgangagerð eins og fleiri í hv. samgöngunefnd.

Við höfum nýlega fengið kynningu á Sundagöngum, Sundabraut, og því var næsta skref að fá kynningu á samgöngum til Eyja og Eyjagöngum. Stefnan hefur verið mörkuð og hún liggur fyrir varðandi samgöngur til Eyja. Hún tekur mið af því að bæta samgöngurnar þannig að byggt verði upp við Bakka og skipaferðirnar, með Herjólfi, verði bættar.

Varðandi yfirlýsingu fjármálaráðherra, sem hv. þingmaður spurði um, þá get ég í sjálfu sér ekki tjáð mig um það en stefna ríkisstjórnarinnar og samgönguráðherra liggur fyrir í þeim efnum. Eins og ég sagði við blaðamanninn sem hafði samband við mig eftir þennan fund þá var þessi kynning fyrst og fremst haldin til að upplýsa nefndarmenn um stöðu málsins og af hálfu formanns samgöngunefndar stendur svo sem ekki til að aðhafast meira í málinu. Hvort menn taka síðan ákvarðanir um það að fara í einhverjar frekari rannsóknir skal ég ekkert segja um á þessari stundu, sjálfsagt að gera það ef menn telja fjármunum í það verkefni vel varið. En fyrir mitt leyti stendur ekki til að taka málið upp eða ræða það frekar í samgöngunefnd.