135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um samgöngur til Vestmannaeyja. Stefnan í þessu máli er algjörlega skýr, hún hefur komið fram í samgöngunefnd Alþingis og hún hefur komið fram hér í þessum sal. Hún hefur komið fram í mínu máli og hún hefur komið fram í máli samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar. Stefnan er sú að byggja upp Bakkafjöru og tryggja þannig samgöngur til Eyja að sinni.

Það sem lýtur að framtíðinni, jarðgangagerð og hugsanlega áframhaldandi rannsóknum á jarðgöngum til Eyja bíður betri tíma. Þannig er staðan. Ég vil líka minna á það, herra forseti, að það liggur fyrir einróma samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyja um það að byggja upp Bakkafjöru og tryggja þannig viðunandi samgöngur til Eyja. Það er ekki lítið.

Ég held að við í þessum sal ættum að sameinast um að tryggja þessar samgöngur núna fyrst það er þverpólitísk samstaða allra sem að málinu koma, bæjarstjórnarinnar, samgöngunefndar, ríkisstjórnarinnar og fagráðherrans um að einbeita sér að Bakkafjöru og við ættum ekki að rugla umræðuna að sinni með öðrum valkostum. Hvað framtíðin ber síðan í skauti sér varðandi frekari jarðgangagerð verður bara að koma í ljós. En að lokum vil ég segja það, herra forseti, í þessari umræðu: Stefnan er alveg skýr og hún hefur margoft komið fram hér í sölum Alþingis.