135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2006 segir m.a. með leyfi forseta:

„Það er grundvallarregla í íslenskri stjórnsýslu að ákvarðanir og athafnir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og vera í samræmi við lög.“

Það á nú ekki að þurfa að taka það fram hér á hinu háa Alþingi en að sjálfsögðu starfa ráðherrar og ríkisstjórnir á grundvelli laga og sækja vald sitt til þeirra og þess sem Alþingi hefur ákveðið í þeim efnum.

Það er alls ekki nýtt að ríkið geri samninga vegna opinberra verkefna. Það má vísa til þess að í innkaupastefnu ríkisins frá árinu 2002 segir að eðlileg krafa til ríkisstofnana sé að skoðað sé reglulega og skipulega hvort verkefni séu leyst með hagkvæmari hætti innan stofnunar eða með því að kaupa þjónustuna á almennum markaði.

Það má jafnframt geta þess að svokölluð útvistunarstefna ríkisins var samþykkt af ríkisstjórninni 6. júní árið 2006 að tillögu fjármálaráðherra. Þar segir í formála, með leyfi forseta:

„Viðhorf til rekstrar hins opinbera hafa breyst á undanförnum árum hérlendis sem erlendis. Lengi var litið svo á að aðeins ríkið gæti annast tiltekin verkefni á þeirri forsendu að það eitt byggi yfir nægjanlegri þekkingu og mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnunum. Nú hefur það sýnt sig að samkeppni og einkarekstur eiga erindi á ýmsum sviðum sem áður voru alfarið í höndum hins opinbera.“

Enn fremur er þar vitnað í nýlega úttekt OECD á rekstri og stjórnsýslu um 20 Evrópuríkja þar sem fram kemur að Ísland er ekki mjög framarlega í útvistun verkefna. Norðmenn, Finnar, Svíar og Bretar verja t.d. hærra hlutfalli opinberra útgjalda með þessum hætti en Íslendingar. En útvistun af þessu tagi er að sjálfsögðu gerð á grundvelli samninga milli verkkaupans, sem er ríkið, og verksalans, sem er þá sá sem veitir þjónustuna.

Umboðsmaður Alþingis gerir í skýrslu sinni ekki athugasemdir við hefðbundna einkaréttarlega samninga af hálfu ríkisins enda er ljóst að opinberir aðilar þurfa vegna starfsemi sinnar á hverjum tíma að afla nauðsynlegra rekstrarvara, kaupa þjónustu eða verk og semja um not af aðstöðu.

Hins vegar bendir umboðsmaður Alþingis á 30. gr. fjárreiðulaga en þar er einmitt að finna eina helstu lagastoðina fyrir þjónustusamningum ríkisins — veitir ekki heimild til að framselja til einkaaðila vald til að taka ákvarðanir um réttindi manna og skyldur. Það er vissulega hárrétt. Umboðsmaður Alþingis nefnir dæmi um að þótt ríkið geti samið við einkaaðila eða félagasamtök um að reka tiltekna þjónustu, t.d. fyrir aldraða, sjúka eða heimilislausa, geti ekki í falist því framsal ákvörðunar um hvort viðkomandi eigi rétt á slíkri þjónustu. Það er auðvitað lykilatriði.

Eins og fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis hefur verið úr því skorið með dómum Hæstaréttar að samningar sem ríkið gerir án þess að fullnægjandi fjárheimild hafi verið samþykkt af Alþingi, séu ekki skuldbindandi fyrir ríkið. Samningur af því tagi fjalli þá í reynd aðeins um að ráðherrar leggi tillögu um heimildina eða um fjárveitingu fyrir Alþingi.

Telji ráðherra hins vegar rétt að gera samning áður en heimildar er aflað á Alþingi t.d. vegna þess hve málefnið er brýnt er að sjálfsögðu rétt að mínu mati að gera fyrirvara í samningnum um samþykki Alþingis. Það er það sem yfirleitt er gert, eins og hv. þingmönnum er mætavel kunnugt.

Eins og ég gat um er ekki ástæða til að breyta vinnulagi varðandi flesta þá samninga sem ríkið gerir enda er umboðsmaður Alþingis ekki að fjalla um þá. Hins vegar er þessi kafli í skýrslu umboðsmanns Alþingis áminning til stjórnvalda og allra þeirra sem fara með opinbert vald um að samningaleiðin á ekki alltaf við. Ég vænti þess því að ráðuneyti og ríkisstofnanir muni kynna sér vel þá leiðsögn sem er að finna í umræddum kafla í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Þar segir að þótt samningaleiðin sé oft ákjósanleg þá á hún ekki alltaf við, annaðhvort alls ekki eða þá ekki nema skýr lagaheimild sé fyrir hendi.