135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:56]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það málefni sem hér er til umræðu snertir nokkuð það starf sem ég hef kynnst í fjárlaganefnd. Auðvitað er mikilvægt að koma betra skikki á ýmsa liði í því. Ég vil þó leggja áherslu á að meðalhófs sé gætt því ríkisvaldið og þeir sem fara með framkvæmdarvaldið í landinu þurfa líka að hafa möguleika til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum. Við sjáum það af þessari skýrslu, sem ég þakka fyrir, að mörg af þessum verkefnum eru þannig til komin að þeim fylgja ófyrirséð útgjöld sem erfitt hefði verið að fresta til næstu fjárlagagerðar. Þar þarf framkvæmdarvaldið að geta gripið inn í.

En við sjáum líka tilhneigingu, og ég hygg að saga þess teygi sig ansi langt aftur í íslenskri stjórnsýslu, að síðasta ár fyrir kosningar að gætir þess nokkuð að samningar af þessu tagi séu fleiri en í venjulegu árferði. Ég velti fyrir mér hvort þar sé ekki þörf á sérstökum reglum. Umboð ríkisstjórnar til að gera svona samninga á kosningavori er ákveðnum vafa undirorpið þar sem viðkomandi ríkisstjórn getur ekki reiknað með því að hún vinni með þeim þingmeirihluta sem vinnur næstu fjárlagagerð. Það er ákveðið pólitískt tómarúm í þeim loforðum sem þá eru gefin og (Forseti hringir.) ég vil ekki undanskilja minn flokk í því, þótt mér sýnist að bróðurpartur slíkra samninga á þessu vori hafi nú verið (Forseti hringir.) frá öðrum flokki.