135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvert hv. þingmaður er að fara. Mér finnst allt í einu eins og hann sé nánast að mæla á móti frumvarpinu, sé á móti ákvæðinu um landsskipulagsáætlun, ég er alla vega er farin að skilja hv. þingmann þannig.

Skipulagsstofnun á að fá það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulag samkvæmt frumvarpinu í stað umhverfisráðherra eins og nú er, þó að það standi hérna reyndar að ráðherrann geti staðfest í ákveðnum tilvikum. Ráðherrann mun ekki hafa þá innkomu sem hann hefur í dag með staðfestingu á skipulagi. Ég held að það væri nánast óbærilega erfitt fyrir ráðherra á hverjum tíma að vera í þeirri stöðu að taka ákvörðun, ef hann væri að staðfesta skipulagið eins og hann gerir í dag, að taka ákvörðun frá skipulagi til skipulags um hvort eitthvað fari í bága við almenna stefnumótun í landinu. Ég held að það væri geysilega erfitt og ég sé ekki alveg hvernig hægt er að ætlast til að ráðherrann sé í því hlutverki, þetta geta verið mál sem eru þess eðlis. Þá er miklu betra að hafa það klárt í lögunum hvort við ætlum að ganga alla leið, þ.e. að landsskipulagið sé þess eðlis að sveitarfélögin verði að fara eftir því, eða að hafa landsskipulagið sem stefnumótun, þ.e. að æskilegt væri að sveitarfélögin gerðu hitt og þetta en það væri ekki skylda. Ég held að þingið verði að taka þann kaleik að gera þar upp á milli.

Samkvæmt frumvarpinu er ríkisstjórnin, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, búin að gera það upp við sig að ganga alla leið í þessu. Ég er ekki að segja að það sé rétt, ég tel að það verði að skoða það í umhverfisnefnd. Ég er heldur ekki að segja að það sé rangt, ég vil ekki kveða upp úr um það á þessu stigi en ég tel alla vega nauðsynlegt að að gera þessar áætlanir og að þær hafi einhvers konar vægi.