135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

umferðarslys og vindafar.

[14:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Svavarsson spyr um athyglisverða hluti hvað varðar rannsókn á veðurfari, vindum og öðru slíku við veghönnun og hvernig að því er staðið. Ég skal játa strax að ég er ekki mikill sérfræðingur á þessu sviði en hef þó lesið mér til um það að Vegagerðin hefur verið að styrkja slík verkefni. Slík verkefni eru í gangi, hafa verið í gangi undanfarin ár, og eftir því sem ég best veit er margt af því sem þar hefur komið fram notað við nýhönnun vega, vindmælingar og annað slíkt er notað. Einnig er unnið með þessa þætti þegar verið er að lagfæra þekkt svæði sem eru slæm. Svarið er því: Já, litið er til niðurstaðna rannsókna og þess sem er í gangi hvað þetta varðar með tilliti til umferðarslysa og áhrifa veðurs á þau.

Við þekkjum það, og heyrðum af því fréttir ekki alls fyrir löngu, að á ákveðnum svæðum, sem betur fer hafa kannski ekki hlotist af því slys, hefur klæðning, jafnvel malbik, verið að flettast af vegum. Ég veit um þekkt svæði nálægt minni heimabyggð. Ég get líka sagt af eigin reynslu hvað varðar áhrif vinds, hálku, snjóþunga og annarra veðurfræðilegra þátta á akstursskilyrði. Ég lenti í því á síðasta ári á keyrslu frá Raufarhöfn, var á leiðinni til baka í Kelduhverfi, að mikil vindhviða kom og hálka var á vegi og ekki var hægt að gera annað en að sveigja út af. Sem betur fer var frágangur Vegagerðarinnar á þessu svæði þannig að vel var gengið frá bakka og gamli vegurinn ekki langt undan þannig að hægt var að sveigja í þá áttina. En það voru tvímælalaust vindur og hálka sem gerðu það að verkum að maður lenti út af.