135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:10]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að hefja þessa umræðu því að það er náttúrlega alltaf gott þegar rætt er um þessi mál í þingsölum. Það sem við getum verið mjög ánægð með hér er hvað afurðir íslensks landbúnaðar eru góðar sem gerir það að verkum að fólk sækist eftir því að neyta þeirra. Gæði þeirra eru það mikil að þær geta alveg verið í fullri samkeppni hvað þetta varðar við aðrar landbúnaðarvörur. (Gripið fram í.)

Því miður er ástandið slíkt að margir bændur eru komnir í gríðarlegar skuldir, til dæmis ýmsir kúabændur. Það er út af því að þeir hafa þurft að fjármagna og kaupa mjög mikinn kvóta og eru nú í miklum vandræðum. Það kerfi sem við höfum búið við virðist ekki hafa virkað nægjanlega vel þrátt fyrir niðurgreiðslur og annað.

Ég er mjög ánægður að sjá að margir bændur leitast nú við að tengja sig við markaðinn eins og sást til dæmis vel í fréttum um daginn þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra var í fjárhúsinu á Fossi að taka á móti fé. Það er ný hugmynd sem byggist á því að fólk fái sér fé sem það getur svo fylgst með og fengið afurðir af því. Þetta er mjög góð hugmynd. Aðrar hugmyndir eru til dæmis um að fá fé beint frá býli, frá haga í maga, eins og einn ágætur maður hefur oft sagt í þinginu, hv. þm. Guðni Ágústsson. (Forseti hringir.) Ég tel að við ættum að reyna að leggja meiri áherslu þetta, beinni samskipti bóndans við markaðinn.