135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[16:59]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Ég fylgi úr hlaði tillögu til þingsályktunar um íþróttakennslu í grunnskólum. Við fyrstu sýn lætur tillagan ekki mikið yfir sér, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að beina þeim tilmælum til menntamálaráðherra að við endurskoðun námskrár í grunnskólum verði kennsla í íþróttum aukin og nemendum tryggð að minnsta kosti ein hreyfistund á dag.“

Þessi tillaga er flutt af mér og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur.

Í nýjasta Læknablaðinu er grein eftir Þórarin Guðnason lækni. Þar kemur fram að árlega deyja um 1800 Íslendingar og þar af um 700 úr hjarta- og æðasjúkdómum. Það fylgir ekki sögunni hversu margir einstaklingar eru háðir þessum sjúkdómum en upplýst er að biðlisti eftir hjartaþræðingum eru átta mánuðir og sá biðlisti lengist stöðugt.

Hjarta- og kransæðasjúkdómar eru m.a. afleiðingar offitu og hreyfingarleysis. Svo er og um marga aðra sjúkdóma sem ekki verða upp taldir en eru í raun sjálfskaparvíti fólks sem hefur vanrækt heilsusamlegt líferni, hreyfingu og hollt mataræði.

Upplýst er að unga kynslóðin þyngist með hverju ári, hverjum degi, vegna kyrrsetu þar sem hún er límd niður fyrir framan sjónvarpstæki, tölvur og við ipod-tæki á milli þess að börnunum er ekið milli heimilis og skóla og hamborgarastaða með farsímann í höndunum. Allar mælingar sýna, svo ekki verður um villst, að þjóðin er að þyngjast og þá ekki síst æskufólkið. Og að því leyti fljótum við sofandi að feigðarósi.

Það er ekki nóg með að dauðsföllum fjölgi og að hver einstaklingur sem býr við klafa offitu eigi við heilsufarsvanda að stríða heldur er flestum ljóst að kostnaður, fyrirhöfn, lækningar og endurhæfing af völdum of mikillar líkamsþyngdar verður stærri og stærri hluti af útgjöldum samfélagsins til heilbrigðismála. Offitan leggst með öðrum orðum ekki aðeins á þá sem eru of feitir heldur leggst hún á þjóðfélagið allt.

Hvað er þá til ráða, herra forseti? Ekki getum við mælt fyrir um það í lögum að hverjum og einum sé skylt að fara í megrun. Ekki getum við bannað matgræðgina. Ekki getum við kennt gömlum hundum að sitja. Ekki getum við rekið fullorðið fólk gegn vilja þess í líkamsrækt. En við getum hert áróður fyrir heilsusamlegu líferni. Við getum hvatt fólk til dáða, gefið út leiðbeiningar og varað við hinu og þessu.

Við flutningsmenn þessarar tillögu teljum að ein aðferðin sé að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Við viljum gera tilraun til að börn okkar temji sér þann lífsstíl sem er forvörn í eðli sínu, þ.e. að hreyfa sig með reglubundnum hætti. Það er kjarni málsins og lykill að bættri heilsu til langframa. Það þarf að kenna þann lífsstíl sem dugar best.

Í rannsóknum á þessu sviði kemur í ljós að sterk tengsl eru milli þyngdar og heilbrigðis, því miður með öfugum formerkjum. Sömuleiðis eru sterk tengsl á milli ofþyngdar og/eða offitu annars vegar og slaks námsárangurs og vanlíðunar hins vegar. Eftir því sem hægt er að lesa út úr rannsóknum þá finnast engir nemendur meðal þungra barna eða unglinga sem ná framúrskarandi námsárangri.

Með öðrum orðum: Hér er ekki eingöngu um að ræða heilsufarsleg áhrif, heldur einnig andlegar og félagslegar afleiðingar. Feit börn verða fyrir aðkasti og einelti. Þau verða félagslega fælin. Þau fyllast kvíða og einangrast. Svo það sé sagt alveg hreint út þá verða þessir einstaklingar félagslega fatlaðir. Sú fötlun fylgir þeim því miður áfram fram á fullorðinsaldur og stundum alla leið í gröfina.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að iðkun íþrótta og líkamsræktar sé holl og góð fyrir börn. Hún dregur úr líkum á áhættuhegðun, óæskilegum lifnaðarháttum og hefur margvísleg önnur jákvæð áhrif á líf barna og ungmenna. Námsárangur er oftast betri, svefnvenjur reglulegri og regluleg hreyfing þroskar aga og einbeitingu. Öllum rannsóknum ber saman um þetta.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur á þeim tíma sem hann hefur setið á ráðherrastól lagt áherslu á að hann vilji efla forvarnir í þeim tilgangi að draga úr útgjöldum til heilbrigðismála og koma í veg fyrir sjúkdóma. Þá stefnu hæstv. ráðherra styðjum við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar. Við fögnum henni og viljum með þessari tillögu leggja okkar af mörkum með því að hreyfa þeirri hugmynd að íþróttakennsla í grunnskólum verði aukin sem nemur einni hreyfistund á dag.

Í námskrá grunnskólanna er gert ráð fyrir þremur tímum í viku til íþrótta og þar af einum til sundkennslu. Þetta er að okkar mati allt of lítið og dugar hvergi.

Því miður er allt of lítil áhersla lögð á íþróttakennslu í grunnskólunum. Undanbrögð eru þar að auki algeng og börnin og skólinn vanrækja oft og tíðum að uppfylla lágmarkið. Sannleikurinn er hins vegar sá að hér er leirinn sem við getum hnoðað. Í skólunum er vettvangur til að brýna fyrir börnunum mikilvægi þess að hreyfa sig. Skólinn er ekki aðeins til að kenna börnum að lesa og skrifa og öðlast þekkingu af bókum. Skólinn er uppeldisstofnun sem á að rækta með æskunni meðvitund um gildi heilsu og vellíðurnar, hreyfingar, útiveru, andlegs og líkamlegs þroska. Líkaminn er verðmætari en flest annað. Líkamann eigum við ein og án ræktunar hans og viðhalds fáum við engu áorkað í lífinu, hversu mikið sem við lærum, hversu gáfuð og efnuð og klár sem við annars erum.

Svo vill til að undirritaður átti sæti í nefnd á vegum hæstv. menntamálaráðherra undir forustu núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún hefur sent frá sér ályktanir og tillögur þar sem m.a. er bent á það úrræði sem hér er lagt til, þ.e. að auka íþróttakennslu í skólum. Hæstv. menntamálaráðherra hefur í sinni ráðherratíð margsinnis staðfest og sýnt í verki að hún skilur gildi íþrótta og ég trúi því að þeir ráðherrar sem ég vitna til skilji og vilji sameiginlega framfylgja þeirri hugsun sem hér kemur fram og styðji framgang þessa máls.

Ég held enn fremur að íþróttahreyfingin, íþróttafélögin um land allt, muni svara kalli um aðstoð og aðkomu að þessu máli ef eftir því yrði leitað. Þar er um að ræða þéttofið net öflugra samtaka og sjálfboðaliða sem geta og vilja leggja ráðuneytum menntamála og heilbrigðismála lið sitt ef eftir því verður leitað.

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga er í sjálfu sér afar einföld, afmörkuð og skýr. Hún er vel framkvæmanleg. Félag starfandi íþróttakennara hefur lýst sig eindregið meðmælt ákvörðun í þessa átt. Læknar og heilbrigðissamfélagið hafa margsinnis bent á þessar forvarnir í þágu almenns heilsufars og hið háa Alþingi hefur einnig látið álit sitt í ljós. Þar hef ég í huga þingsályktun sem hér var samþykkt að frumkvæði heilbrigðisnefndar í maí 2005. Þar var ályktað að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Sú áætlun var unnin og hefur verið gefin út og er í sjálfu sér ástæða til þess að spyrjast fyrir um að hve miklu leyti henni hefur verið hrundið í framkvæmd. Nýlega sá ég í blöðum viðtal við formann nefndarinnar sem gekk frá þessum áætlunum. Þar kom fram að lítið hefði gerst eftir að skýrsla nefndarinnar lá fyrir.

Þótt átakið hafi legið í biðstöðu teljum við flutningsmenn að ekki sé eftir neinu að bíða enda þoli málið enga bið. Við teljum að stíga eigi það skref núna með afmörkuðum hætti að hreyfiskylda barna í grunnskólanum verði aukin. Hitt getur svo fylgt á eftir en einhvers staðar þarf að byrja.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að segja að offita er dauðans alvara. Offita af völdum hreyfingarleysis hefur verið nefnd faraldur, útbreiddur og hættulegur sjúkdómur sem herjar á nútímafólk. Það er hægt að stemma stigu við þeim faraldri með skipulegum hætti, m.a. með því að láta hendur standa fram úr ermum og ákveða að í grunnskólum sé yngstu börnunum kennt og þeim tamið að stunda reglulega hreyfingu undir leiðsögn íþróttakennara. Offita og hreyfingarleysi er alls ekki einkamál hvers og eins.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til menntamálanefndar og 2. umr.