135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:13]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir. Hún minntist á skýrslu sem gefin var út af nefnd sem heilbrigðisnefnd fór fram á að forsætisráðherra skipaði á sínum tíma. Ég veit ekki betur en að skýrslan hafi verið metnaðargjörn og í henni fjöldi af áhugaverðum tillögum. Það eru vonbrigði að fæst af því skuli hafa komist í framkvæmd og kannski er eitt af viðfangsefnum hins háa Alþingis að sjá til að ekki bara skýrslur séu gerðar heldur að einhverju leyti farið eftir þeim.

Þetta mál eins og ég sagði áðan, er tiltölulega einfalt. Það gengur út á að í stað þriggja tíma í hverri vinnuviku hjá börnunum í grunnskóla í íþróttakennslu þá stundi þau einhvers konar hreyfingu a.m.k. einu sinni á dag. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst. Í mínum huga skiptir það ekki meginmáli hvort það heitir formleg íþróttakennsla og fólk stundi þar íþróttir á stuttbuxum. Aðalatriðið er að kenna unga fólkinu að hreyfa sig, njóta vellíðunar sem af því hlýst og um leið að draga úr óeðlilegri offitu.