135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:42]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið farið yfir það í hverju þessar mótvægisaðgerðir eru fólgnar. Þær eru fólgnar, eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði, annars vegar í skammtímaaðgerðum sem eiga að koma strax að notum til að búa til störf í stað þeirra sem munu tapast við minnkandi aflaheimildir í þorski. Síðan eru aðrar aðgerðir sem eiga að vera til þess fallnar að styrkja atvinnuþættina í byggðarlögunum vítt og breitt um landið. Nákvæmlega þetta er að gerast. Við sjáum að nánast á hverjum degi eru boðin út ný verkefni á vegum ríkisins sem munu auðvitað búa til ný atvinnutækifæri og þau munu síðan fyrst og fremst leggja grundvöllinn að enn þá frekari viðreisn atvinnulífsins víða um landsbyggðina. Við vitum að það er þýðingarmest fyrir okkur að byggja upp innviðina úti á landi og það er það sem verið er að gera með þessum mótvægisaðgerðum.

Hér var sagt að ekki hefði verið haft neitt samráð þegar lagðar voru fram þessar hugmyndir og tillögur að mótvægisaðgerðum. Áður en þessar mótvægisaðgerðir voru kynntar lágu þó fyrir hugmyndir, óskir og tillögur frá fjöldamörgum aðilum, sveitarstjórnum, samtökum þeirra, hagsmunasamtökum og fleirum sem voru lagðar til grundvallar þegar þessar mótvægisaðgerðir voru kynntar. Þetta voru ekki mótvægisaðgerðir sem urðu til án einhvers tilefnis eða án þess að menn hefðu samráð um þá hluti, þetta samráð fór þannig fram að það var reynt að byggja á því sem fólkið í byggðunum lagði til. Það var ekki síst það að efla menntunarstigið, styrkja innviðina, auka framlög til samgöngumála, búa til aukna fjárfestingu á þessum svæðum þannig að það gæti skapað ný störf.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon vék réttilega að því að tíðindi varðandi loðnuna eru mjög alvarleg. Það hefur ekki tekist að mæla nægjanlegt magn til að standa við þann kvóta sem upphaflega var gefinn út. Að vísu er enn þá óvissa um þessa hluti. Þessa stundina er verið að fara yfir þær mælingar sem hafa staðið yfir, m.a. í morgun. Þessa stundina er ekki hægt að greina frá niðurstöðum, það verður ljóst síðar í dag og ég tel (Forseti hringir.) rétt og sjálfsagt, eins og hv. þingmaður nefndi, að þingmenn hafi aðgang að þeim upplýsingum og geti rætt þau mál á vettvangi viðeigandi þingnefnda, eins og talið er eðlilegt.