135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

fjárhagsleg staða Orkusjóðs.

392. mál
[15:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og það sem ég þóttist merkja af máli hans, og reyndar vissi ég það fyrir, að hann er mikill áhugamaður um þetta. (Gripið fram í: Það lá vel á honum.) Það lá vel á honum og mér líkar alltaf best við hæstv. ráðherra þegar liggur vel á honum. Ég get sagt það.

En það fram kom hjá hæstv. ráðherra að nú séu viðræður uppi um að gera upp þá ógreiddu styrki sem ríkissjóður á eftir að gera upp í gegnum Orkusjóð. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í því og ef ég get eitthvað hjálpað honum þá er ég meira en tilbúinn til þess. Ég veit að það á við um fleiri.

Ég vona því að árangur náist úr þeim viðræðum milli félaganna í ríkisstjórninni um að ganga frá þessum málum því að ég veit að það eru litlar hitaveitur úti á landi sem hafa verið í þessum framkvæmdum og mega illa við því að þetta dragist lengur. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það.

Einnig ber að fagna því að ráðherrann hefur áhuga á því að halda áfram með þetta verkefni sem hefur verið í gangi í allmörg ár. Auðvitað vonum við öll að heitt vatn finnist sem víðast þannig að sem flestir íbúar landsins geti notið þeirra lífsgæða sem því fylgja að hafa hitaveitu og heitt vatn. Ég bind því miklar vonir við dugnað hæstv. ráðherra. Hann er þungur á skriðinu þegar hann fer af stað og ég vænti þess að svo verði einnig í þessu máli.