135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir talar fyrir og leggur fram, góður baráttufélagi úr félagsmálapólitíkinni til margra ára sem eflaust hefur gert sitt til þess að koma ríkisstjórninni eins langt fram í þessum málaflokki og hún hefur getað.

En ég verð að segja, hæstv. forseti, að það er svolítið undarlegt held að hljóti að vera fyrir öryrkja og aldraða að hlusta á þessa umræðu. Þessa mærð, þessa sjálfumgleði af hálfu fólks sem sjálft er með í launum á milli 600 þúsund og milljón og þar yfir gleðjast svona óskaplega yfir góðverkum sínum í garð einstaklinga og hópa sem eru langt undir fátæktarmörkum. Við erum að tala um kjör öryrkja. Við erum að tala um kjör aldraðra sem ekki hafa úr neinum öðrum sjóðum en almannatryggingum að spila og eru með um 130 þús. kr. á mánuði. Þetta er veruleikinn sem við erum að taka á og veruleikinn er líka sá að ríkissjóði verði skilað með stórkostlegum tekjuafgangi inn í næsta ár á þessu ári. Það voru tillögurnar og á sama tíma og það gerist var ríkisstjórnin að hækka komugjöldin á heilsugæslustöðvar. Hvað var það, hæstv. félagsmálaráðherra? Var það um 30% eða var það um 50% um síðustu áramót? Þurfum við ekki að ræða alla þessa hluti í samhengi? Þurfum við ekki að skoða þær tölur og þau lífskjör sem við erum að taka hér á? Ég held hæstv. forseti að öryrkjar og lífeyrisþegar sem þurfa að treysta á almannatryggingar um lífsviðurværi sitt hafi búist við miklu meira af hálfu þessarar ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabilsins en þeir sjá núna verða að veruleika. Það held ég að sé veruleikinn þegar menn fara að rýna ekki bara í stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar heldur í þær blaðagreinar og þær yfirlýsingar sem gefnar voru í aðdraganda síðustu kosninga.

Hvenær, hæstv. félagsmálaráðherra, reiknar ríkisstjórnin með því að opna fjögurhundraðasta hjúkrunarrýmið fyrir aldraða sem Samfylkingin hét að yrði reist á fyrstu 18 eða 24 mánuðum á þessu kjörtímabili? Hvenær verður fjögurhundraðasta hjúkrunarrýmið opnað? Hvaða ráðstafanir hafa þegar verið gerðar til undirbúnings þessa? Eigum við ekki að ræða það líka? Við skulum ræða komugjöldin og við skulum ræða þessi loforð sem gefin voru í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Hæstv. forseti. Það er margt gott í þessu frumvarpi. Það er verið að stíga ýmis skref fram á við sem hefur verið þverpólitísk samstaða um og sumt er sprottið af baráttu Öryrkjabandalags Íslands og hagmunasamtaka úti í samfélaginu eins og til dæmis afnám tekjutengingar við maka, afnám tekjutengingar á örorkubótum við maka sem er stórkostlegt mannréttindamál og furðulegt að skuli ekki hafa verið afnumið með lögum miklu fyrr. Þetta er framfaramál og sjálfsagt mannréttindamál að mínum dómi.

Við þessa umræðu hafa verið settar fram ýmsar spurningar sem hljóma pínulítið kostulega í mínum eyrum. Hér var til dæmis sett fram sú spurning af núverandi hæstv. forseta þessa fundar hvort það væri ekki rétt að almannatryggingar mundu hækka annaðhvort í samræmi við lánskjaravísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvort yrði hærra, um þetta hefði verið kveðið í síðustu kjarasamningum. Það eru ákvæði um þetta í landslögum. Þessu hefur verið svona varið um nokkurra ára skeið. Það er staðreyndin. Ég hvet því til að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn dempi aðeins sjálfshól og sjálfsánægju í tengslum við þetta frumvarp. Ég segi: Það þarf að gera miklu betur. Það þarf að gera miklu betur við aldraða og öryrkja en þessi fyrstu skref ríkisstjórnarinnar bera vott um.