135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[16:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. iðnaðarráðherra svörin. Ég sé ekki betur en að hér liggi svör ríkisstjórnarinnar á borðinu þegar þau eru vegin, svör hæstv. iðnaðarráðherra og svör hæstv. fjármálaráðherra. Það er alveg ljóst að ef tækin, sem hæstv. iðnaðarráðherra talar um svo fjálglega í ræðu sinni, eru brúkuð þá koma þau, ef ég túlka svar hæstv. fjármálaráðherra, til með að skila réttum og góðum niðurstöðum. Hvaða niðurstöður ætli það séu í huga hæstv. fjármálaráðherra? Álver í Helguvík, álver á Bakka og álver í Þorlákshöfn. Og þar með eru farin fyrir lítið öll áform Samfylkingarinnar um hið fagra Ísland.

Auðvitað var hæstv. iðnaðarráðherra að reyna að tala til kjósenda Samfylkingarinnar sem kusu Samfylkinguna út á hið fagra Ísland, þá grænu hempu sem sá stjórnmálaflokkur brá yfir sig í kosningabaráttunni. En auðvitað er það deginum ljósara að flokkur sem dregur náttúruverndarlínuna í sandinn á það á hættu að Sjálfstæðisflokkurinn komi með kústinn sinn og þurrki línuna út og reisi öll þau álver sem hugsast getur. Og hvað gerir Samfylkingin þá? Samfylkingin fylgir auðvitað á eftir.

Það sem kemur fram í umræðunum hér er að Samfylkingin ætlar sér ekki að beita sér fyrir neinu stóriðjustoppi innan þessarar ríkisstjórnar. Sú niðurstaða liggur á borðinu núna. Misvísandi ummæli ráðherranna í fréttum hér eftir sem hingað til er þá hægt að skoða í því ljósi.

Hv. þingmönnum eins og Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum sem hér hafa talað vil ég bara benda á að auðlindirnar okkar í vatnsföllunum og háhitanum er hægt að virkja með öðrum hætti en til rafmagnsframleiðslu fyrir stóriðju. (JónG: Komdu með hugmyndir.) Það er meira að segja hægt að virkja þær án þess að snerta þær (Gripið fram í: Hugmyndir ...) og það eru ótal hugmyndir. Ég bendi fólki á að lesa þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) upp á sextán síður um sjálfbæra atvinnustefnu.