135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:23]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi svör. Ástæðan fyrir því að ég dró þetta fram varðandi stórar virkjanir er að fram kemur á bls. 60 akkúrat það sem hæstv. ráðherra sagði um mat á stærri virkjunum, að oft væri tilhneiging til að gera of mikið úr umhverfisáhrifum viðkomandi virkjunar.

Það sló mig bara þegar ég las þetta og ég er algjörlega sammála þessu. Mér finnst mjög gott að þetta skyldi hafa komið fram í skýrslunni vegna þess að oft hefur umræðan einmitt verið á hinn veginn. Þá er ég alls ekki að segja að litlar virkjanir eigi ekki rétt á sér, þvert á móti. Almennt séð er ég mjög fylgjandi því að menn virki hlutina svo lengi sem það er í samræmi við umhverfið og allar reglur sem gilda. Ég fór samt að velta fyrir mér þegar ég las þetta, þeirri umræðu sem var í morgun út af stórnotendum á raforku. Hér eru menn alltaf að tala um álbræðslur en við vonumst auðvitað til þess að við fáum líka öðruvísi iðnað inn í landið til hliðar við álbræðslurnar vegna þess að um þær gilda mjög ströng skilyrði. Ég er þess fullviss að það hefur skipt miklu máli fyrir aukið atvinnuframboð hér á landi. En við viljum gjarnan fá meiri fjölbreytni, fá fleiri störf inn í hagkerfið, og nú þegar fer að þrengja aðeins að, hvað gerir fólk? Það fer að tala um framleiðslufyrirtæki. Það er meira að segja þannig að sóttir eru forstjórar framleiðslufyrirtækja til að stjórna bönkunum. Af hverju ætli það sé? Vegna þess að þau eru svo vön að skera niður og halda utan um hlutina. Við þurfum svona fyrirtæki inn í landið bæði til að skapa okkur öruggar tekjur og til þess að skapa störf.

Þess vegna fannst mér áhugavert að heyra það sem fram kom hjá einum hv. þingmanni í morgun að það væri eitthvað verra að koma með stóra vinnustaði inni í landið en litla.