135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig út í hugsanlegar breytingar og endurbyggingu á vesturlínu og það er það flókið mál að ég ætla að geyma mér að fjalla um það þangað til í ræðu minni á eftir. En hv. þingmaður kom fram með ýmsar aðrar spurningar, hann benti á að það kemur fram í raforkuskýrslunni að ráðherra hefur heimild til þess að breyta skilyrðum í virkjunarleyfi sem hann gefur út eða er búinn að gefa út. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að slík heimild er fyrir hendi ef málefnalegar ástæður eru til. Það er ekki útilokað ef þær aðstæður koma upp að ég mundi beita þeirri heimild. Ég hef m.a. rætt opinberlega um þann möguleika varðandi eina tiltölulega smáa virkjun að hugsanlega mundi ég gera það. Sömuleiðis hef ég komið því á framfæri við eitt tiltekið orkufyrirtæki sem vinnur orku úr jörðu að það sé hugsanlegt að skilyrðum í virkjunarleyfi verði breytt ef í ljós kemur að nýting á viðkomandi svæði er of ágeng.

Hv. þingmaður gat þess að það kæmi fram í skýrslunni að hækkunin sem menn óttuðust að yrði við kerfisbreytinguna 2003 hér á þéttbýlissvæðinu hefði ekki komið fram. Það er rétt hjá hv. þingmanni. Það er út af fyrir sig merkilegt miðað við þau ramakvein sem þá voru rekin upp og þær miklu greinar sem skrifaðar voru af forsvarsmönnum sumra fyrirtækja um mikinn kostnað.

Það er hins vegar rétt hjá honum að það hefur komið fram verðhækkun í dreifbýlinu. Að sumu leyti stafar það af því að dreifingarkostnaður í strjálbýlinu er svo mikill. Það er hins vegar ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að upphæðin sem notuð er til að greiða niður dreifingarkostnaðinn hafi staðið í stað. Hún var 230 millj. en ég veit ekki betur en að hún sé orðin 240 millj. á yfirstandandi ári.

Svo vita menn ekki hver þróunin hefði orðið í óbreyttu kerfi og ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því sem er miklu gleggri á tölur en ég. Að öllum líkindum er hækkunin þarna sem hann gat um aðeins fyrir neðan breytingar á (Forseti hringir.) vísitölu.