135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á þeirri skoðun að úr því að menn fóru þá leið að markaðsvæða raforkukerfið þýði ekki að snúa af þeirri braut strax. Það er ekki fullreynt þó að áhyggjur mínar sem ég setti fram þá og endurtek nú séu að mínu viti á nokkrum rökum reistar. Ég bendi á það sem fram kemur í skýrslunni sem við erum að ræða, álit Samkeppniseftirlitsins sem telur að það væri í bestu samræmi við markmið samkeppnislaga að skilja að eignarhald samkeppnis- og eignarhaldsþátta en að lágmarki að skilja þessa starfsemi að í sjálfstæðum félögum. Ég held að taka ætti þessar ábendingar til athugunar og kannski fleiri atriði sem menn trúa að eigi að leiða til aukinnar samkeppni. Við skulum láta reyna á það til fullnustu að það gangi eftir.

Eins og ég sagði áðan þá held ég að það sé algjörlega nauðsynlegt að halda dreifikerfinu og þessum flutningslínum í opinberri eigu. Ég held að við eigum ekki að opna fyrir eignaraðild utanaðkomandi aðila inn í það kerfi eins og stjórnarfrumvarpið gerði ráð fyrir 2004 og ég vona að það séu einhverjar slíkar áherslur í því frumvarpi sem við ræðum síðar í vikunni um orkuauðlindir almennt.

Ég held að við verðum að hafa tiltölulega trausta opinbera forsjá á þessum hlutum til þess að geta reynt að leiða fram þá þróun sem nauðsynleg er til þess að samkeppnismarkaðurinn virki. Eitt af því sem er kannski áhyggjuefni er að eigendurnir eru að taka út arð af eign sinni í þessum raforkufyrirtækjum og það er kannski ekki nægilega mikið aðhald í því að takmarka möguleika þeirra til þess að taka út peninga og velta arðinum yfir á notendur í formi gjaldskrárhækkana.