135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:43]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari skýrslu kemur ýmislegt fram hvað varðar raforkuframleiðslu í landinu. Það er alveg rétt að það er ekki umfjöllunarefni þessarar skýrslu sérstaklega að tala um aðra nýtingu vatnsafls þó reyndar sé aðeins imprað hér á stöðu rammaáætlunar. En minn skilningur er sá að þarna sé fyrst og fremst verið að skoða þetta í þrengri merkingunni. En það er ekki þar með sagt að ekki sé ástæða til þess að tala um það í víðari merkingu heldur en það.

Það er aðallega tvennt sem mig langar að spyrja hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um og það varðar flutningskerfið. Það varðar fyrst og fremst styrkingu þess, hvort hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sé sammála mér um að ástæða sé til þess að styrkja flutningskerfið í landinu, sérstaklega á þeim stöðum þar sem erfiðara er um vik að flytja raforku til dæmis til Vestfjarða og á Norðausturland. Þá er ég ekki að hugsa um í því sambandi eingöngu atvinnuuppbygginu heldur afhendingaröryggi til almennings í landinu en þó með þeim fyrirvara að þeim fylgir auðvitað — og það verð ég nú að segja hreinskilnislega við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur — því fylgir auðvitað að það gæti jafnframt nýst til atvinnuuppbyggingar.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að ef farið yrði í Búðarhálsvirkjun eins og nú virðast vera einhver áhöld um að gæti orðið, hvort hún sé á þeirri skoðun að verði þar með einhver breyting á ákvörðun um neðri Þjórsá, hvort þingmaðurinn gæti þá stutt Búðarhálsvirkjun eins og hún liggur núna á teikniborðinu?