135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:47]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum og fagna því skrefi sem ríkisstjórnin tók að lækka álögur á lögaðila niður í 15% fyrr í þessum mánuði.

Ég held að okkur sé öllum hollt að skoða stöðuna eins og hún hefur verið undanfarin ár. Mig langar að rifja það upp hér í þessum ræðustól að árið 1991 var álagning á fyrirtækin okkar 45%. Á því ári var álagning hins opinbera á lögaðila um 4 milljarðar kr. Þetta er árið 1991, 4 milljarðar. Árin 1993 og 1994 er álagningin svo lækkuð niður í 33%. Árið 1999, sem sagt fyrir níu árum, var álagning hins opinbera á lögaðila 10 milljarðar. Árið 2006, þegar við búum við það að álagningin er 18%, hún sem sagt lækkaði árið 2002 niður í 18%, er álagningin orðin 35 milljarðar.

Í þessum tölum má sjá að árið 1991, þegar álagningin er 45%, þá eru það 4 milljarðar. Árið 2006, þegar álagningin er 18%, þá eru það 35 milljarðar. Með álagningu sem er miklu lægri. Nú fagna ég 15%. Í raun hefði ég viljað fara lægra.

Þegar málflutningur vinstri grænna er á þá vegu að við séum að nota einhvers konar kvóta á skattalækkanir þá skil ég ekki slíka hagfræði. Það sem við erum í raun að tala um er að auðvitað á að lækka skatta á alla og ég ætla að minna alla þingmenn á (Forseti hringir.) að það eru grundvallarmannréttindi að hafa atvinnu. Við verðum að standa vörð um fyrirtækin okkar (Forseti hringir.) og sérstaklega á þessum tímum. (Gripið fram í.)