135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:49]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem mér finnst sérstök ástæða til að víkja að. Í fyrsta lagi skautar hann nokkuð létt yfir það að í nýjum áformum ríkisstjórnarinnar er tekið sérstaklega á persónufrádrættinum og hann hækkaður umfram verðlagsbreytingar. En á síðasta kjörtímabili var líka stigið það skref að tengja persónufrádráttinn við verðlagsþróun þannig að þar hafa veruleg skref verið stigin eins og menn sáu í lok síðasta kjörtímabils og eins og menn munu sjá á þessu tímabili.

Í annan stað vildi ég víkja að því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um tekjur ríkisins. Hann sagði eitthvað á þá leið að við vildum reka hér velferðarkerfi og þyrftum tekjur til að standa undir því. Um það eru allir sammála. Það hefur hins vegar komið í ljós — og kemur m.a. skýrt í ljós í greinum í þeirri ágætu bók Cutting Taxes to Increase Prosperity, svo að hún sé nú nefnd einu sinni enn hér vinstri grænum til gleði — að lægri skatthlutföll hafa skilað stórauknum tekjum til hins opinbera, eins og hv. þingmenn Magnús Stefánsson og Guðfinna Bjarnadóttir röktu hér áðan.

Það er nefnilega málið. Með því að stækka kökuna getum við fengið meiri tekjur með því að taka minni sneið. Það er ekki mótsögn í því. Kakan stækkar og minni sneið getur skilað meiri tekjum til ríkisins en áður var vegna þess að skattalækkanir virka með örvandi hætti á allt efnahagsumhverfið, virka með örvandi hætti á fyrirtæki. Gera þeim kleift að ráðast í frekari nýsköpun, stækkun. Þau geta ráðið fleira fólk í betur launuð störf. Þannig hefur þetta jákvæð áhrif út um allt þjóðfélagið.

Ég vil að lokum taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Guðfinnu Bjarnadóttur, sem sagði að auðvitað kysi maður að farið yrði enn neðar en (Forseti hringir.) 15% eru skref sem um munar og því ber að fagna. (Gripið fram í: … dýrara að fara á Landspítalann núna.)