135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegi þingheimur. Það er eins og sé komin þjóðhátíð hjá frjálshyggjuliðinu í Sjálfstæðisflokknum þegar út kemur þessi skattalækkunarbiblía í ritstjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort þessum auglýsingum megi fylgja eftir með því að upplýsa að bókin sé til sölu í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins? Eða hvernig hyggst Sjálfstæðisflokkurinn útbreiða fagnaðarerindið á næstunni?

Það er misskilningur að við höfum verið að boða skattahækkanir og allra síst sem lið í núverandi efnahagsvanda sem er ekki kominn til vegna ráðsmennsku Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Stjórnarráðinu undanfarin ár, vel að merkja. Þar hafa aðrir um vélað.

Við viljum hins vegar að að því marki sem svigrúm er til skattalækkana þá njóti þeir þess sem eru í mestri þörf fyrir það, lágtekjufólk á Íslandi. Það er áhersla okkar og við stöndum keik með henni. Við teljum að um það bil núverandi hlutfall heildarskatttekna ríkis og sveitarfélaga af landsframleiðslu eigi að duga til að standa undir öflugu samábyrgu velferðarsamfélagi. En það skiptir miklu máli að skattbyrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti.

Það hefur verið forgangsatriði hjá Sjálfstæðisflokknum undanfarin ár að lækka skatta, og á hverjum? Á hátekjufólki. Á stóreignafólki, á gróðafyrirtækjum og þeim sem hafa miklar fjármagnstekjur. Og hér sannast það í dag að Sjálfstæðisflokkurinn hefur engu gleymt og hyggur greinilega gott til glóðarinnar í núverandi samstarfi að halda áfram.

En það skyldi nú ekki vera að í staðinn komi komugjöld, sjúklingaskattar, og lágtekjufólk verði skilið eftir með allt of þunga skattbyrði. Og svo kemur klisjan um það að tekjurnar aukist með því að lækka prósentuna. Hvað koma fyrirtækin til með að borga mikið, hv. frjálshyggjupostular, þegar prósentan verður núll? Hvert verður þá framlag manna inn í skattkerfið?

Það á ekki að bera hlutina á borð fyrir kjósendur eins og þeir séu kjánar. Við rekum ekki norrænt (Forseti hringir.) samábyrgt velferðarsamfélag á Íslandi með amerískum skatthlutföllum. (Gripið fram í.)