135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

varðveisla Hólavallagarðs.

51. mál
[14:44]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta litla mál höfum við í umhverfisnefnd haft til umfjöllunar frá 1. umr. en málið var fyrst flutt á 130. löggjafarþingi og fór þá til umsagnar og fékk umsagnir frá Þjóðminjasafni, Fornleifavernd, Biskupsembættinu og kirkjugörðunum auk Reykjavíkurborgar. Það tók síðan lítils háttar breytingum milli þinga og fékk auk þess umsagnir frá samgönguráðuneyti og Reykjavíkurprófastsdæmum austur og vestur.

Í stuttu máli má segja að umsagnir hafi allar verið jákvæðar og lofsverðar og það samhljóða skoðun umhverfisnefndar að það sé til þess fallið að tryggja varðveislu menningarminja í Hólavallagarði að umhverfisráðherra skipi þá nefnd sem lagt er til þar að lútandi í þingsályktunartillögunni. Garðurinn á sér mikla og merkilega sögu og er í raun og veru stærsta minjasafnið í Reykjavík eins og Björn Th. Björnsson benti á á sinni tíð. Ég held að það sé út af fyrir sig óþarfi að rekja þá sögu. Hún kemur vel fram í greinargerðinni sem fylgdi með þingsályktunartillögunni. Það er einfaldlega nefndarálit umhverfisnefndar til Alþingis að tillagan verði samþykkt sem ályktun Alþingis og send hæstv. ríkisstjórn.