135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:46]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé úti á túni með þessar athugasemdir sínar. Ef ég man rétt komu fulltrúar vísindasiðanefndar til nefndarinnar. Hins vegar barst umsögn þeirra fjórum vikum eftir að umsóknarfrestur rann út og eftir að nefndin var búin að afgreiða nefndarálitið. Þeir komu á fund nefndarinnar, eftir því sem ég man best, en fylgdu ekki umsögn sinni eftir fyrr en síðar. Þessi umsögn kom á óvart, ég vissi t.d. ekki af henni í umræðunni sem við tókum núna í haust varðandi það frumvarp sem við ræðum nú um.

Síðan varðandi það að endurskoða ætti lögin fyrir 1. janúar 2008 þá varðaði það allt annað atriði. Það varðaði það sem við tölum um í nefndarálitinu varðandi tæknifrjóvgun, ekki varðandi stofnfrumurannsóknir. Þar bendum við á að endurskoða þurfi ýmis ákvæði varðandi tæknifrjóvgun, bæði ákvæði laga og reglugerða, ákvæði varðandi aldur kvenna, staðgöngumæðrun, einstæðar mæður, konur með sjúkdóma o.s.frv. Það varðaði allt annað atriði en stofnfrumurannsóknirnar þannig að það var enginn flaustursgangur í þessu. Við byggðum á þessum gögnum sem við höfðum fyrir framan okkur.

Það má kannski segja að það hafi verið gott að vísindasiðanefndin kom með umsögn sína þótt seint hafi verið. Ég tel að við hefðum tekið þetta til umræðu milli 2. og 3. umr. ef tími hefði gefist til að fara gegnum umsögn þeirra en eins og ég segi kom hún kom á óvart því að formaður vísindasiðanefndar var í nefndinni. Þau sjónarmið komu ekki fram í nefndinni en þau komu hins vegar fram í þessari umsögn sem barst til þingsins (Forseti hringir.) 14. mars, degi eftir að nefndarálitið var afgreitt í þinginu.