135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að ég sé úti á túni í þessu máli þegar ég byggi málflutning minn á framkomnum gögnum fyrir þinginu. Ég hafði þessa umsögn vísindasiðanefndar fyrir framan mig þegar ég undirbjó mig fyrir umræður sem áttu að fara fram um frumvarpið 14. eða 15. mars. Ef einhverjir eru úti á túni eru það þeir sem höfðu heyrt umsagnir og umkvartanir vísindasiðanefndar en höfðu þær að engu. Ef einhverjir eru úti á túni eru það þeir sem höfðu heyrt og séð framkomnar athugasemdir í umsögnum, m.a. þá sem ég gat um áðan, og var ekki enn búið að taka tillit til um að leyfisbinding fyrir rannsóknarstofu væri ekki bara heimildarákvæði ráðherra heldur væri kveðið á um það í lögunum að slík skilyrði yrðu sett.

Af hverju vill hv. formaður þingnefndarinnar ekki hafa slík skilyrði í lögum? Hverjum þjónar það, virðulegi forseti, að ganga frá lögum sem heimildargagni fyrir ráðherra, rétt eins og í lögum um stjórn fiskveiða (Gripið fram í.) sem allt er byggt á heimildum? Já, ég held að það sé alveg rétt, virðulegur forseti, ég held að við náum saman um það, ég og hv. formaður nefndarinnar. Við skulum bara laga þessa hluti og ganga í verkin. (Gripið fram í.)