135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[17:54]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar, hún er mjög athyglisverð og ég lýsi fullum stuðningi við að sú athugun verði gerð sem tillagan gerir ráð fyrir. Það fer ekkert á milli mála að við Íslendingar þurfum á hverjum tíma að huga mjög að þeim kostum í samgöngumálum okkar sem til staðar eru og eru hagkvæmir. Það er hins vegar alveg ljóst, og vitna ég þá til þess sem kom fram hjá hv. 1. flutningsmanni tillögunnar, að það hafa verið gerðar athuganir áður á hagkvæmni lestarsamgangna, eins og á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, og eins og fram kom hjá hæstv. samgönguráðherra, sem hefur auðvitað kynnt sér þetta mál vel, er vandamálið þar mikill kostnaður. Engu að síður tel ég fullkomlega eðlilegt að Alþingi standi við bakið á samgönguráðherra við að slík athugun verði gerð til þess að við getum á hverjum tíma lagt á ráðin um það hvernig við getum byggt samgöngukerfið upp á sem hagkvæmastan máta.

Hins vegar er á það að líta að við erum í þeirri stöðu núna að verið er að byggja upp meginbrautirnar út frá höfuðborginni, m.a. var tekin ákvörðun um að tvöfalda Reykjanesbrautina. En það verður að segja hverja sögu eins og hún er að það var ekki alveg einróma samstaða um það á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um það af þeim sem hér stendur að tvöfalda Reykjanesbrautina, að ekki yrði farið í það að byggja upp þá braut með öðrum aðferðum svo sem eins og 2+1 eins og vinsælt er að tala um. Tekin var ákvörðun um að byggja upp Reykjanesbrautina, því verki er ekki lokið en það er hins vegar mjög mikilvægt að okkur takist að ljúka því sem allra fyrst.

Ég tel á hinn bóginn alveg ljóst í tengslum við þá athugun sem hér er verið að ræða um að gera á lestarsamgöngum að það sé ekki eitthvað sem gerist á næstu árum eða áratugum. Það sem þarf hins vegar að gera er að ætla slíkri braut svæði í skipulagi og það er kannski mikilvægasta ákvörðunin um þessar mundir hjá sveitarfélögunum á þessu svæði sem eru allmörg, Reykjanesbær, Vogarnir, Hafnarfjörður og Garðabær o.s.frv. Öll þessi sveitarfélög þyrftu þá að huga að því hvar slík lest ætti að liggja og því er mjög mikilvægt að standa ekki þannig að skipulagsmálum á þessu svæði að það verði gert ófært í framtíðinni að bæta slíku við.

Eins og ég sagði fyrr er alveg ljóst að þetta er ekki á næsta leiti en við þurfum samt að huga að þessu. Við þurfum að sameinast um að taka ákvarðanir um fjármuni til uppbyggingar brautanna út frá höfuðborginni og taka ákvarðanir um gerð þeirra sem allra fyrst. Ég minntist á það áðan að tekin var ákvörðun um að tvöfalda Reykjanesbrautina, unnið er að því og lýkur því verki vonandi sem fyrst, ég er sannfærður um að samgönguráðherra mun leggja áherslu á það. Á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að undirbúa tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar og ég get talað frítt núna í þeirri stöðu sem ég er að ég hef fullan skilning á því að hæstv. samgönguráðherra verður að tala varlega um þau efni en ég tel að það eigi hiklaust að gera ráð fyrir Sundagöngum í þeim áætlunum sem unnið er að núna hvað varðar tvöföldun Vesturlandsvegar og það sé alveg óhjákvæmilegt að taka tillit til þess og fara þá leið. Hvers vegna tel ég það? Jú, vegna þess að ég held að við þurfum að horfa nokkuð langt fram í tímann. Vegagerðin hefur það eðlilega hlutverk að leggja upp tillögur um hagkvæmustu leiðir til skemmri tíma litið en við stjórnmálamennirnir erum hins vegar í þeirri stöðu að við þurfum að reyna að horfa mjög langt fram í tímann og huga að því hver ábyrgð okkar er í þeim efnum.

Í langtímaáætlun í samgöngumálum sem var til meðferðar á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu fyrir framgöngu þáverandi stjórnarandstöðuþingmanna, var að sjálfsögðu gert ráð fyrir að það kæmu tvöfaldar brautir út frá höfuðborginni og það var gert ráð fyrir því að það yrði inni í áætlunum okkar að gera jarðgöng undir Öskjuhlíðina til að tengja höfuðborgarsvæðið, miðjuna úr höfuðborgarsvæðinu, til suðurs. Á sama hátt tel ég alveg einsýnt að miða eigi við Sundagöng þegar við undirbúum framkvæmdir til norðurs. Þetta vildi ég taka fram af því tilefni að við ræðum hér um lestarsamgöngur. Ég tel að skoða eigi það mál með hina löngu framtíð í huga og vona að menn skoði það af skynsemi en séu ekki að leggja upp einhverja drauma, hvað varðar gerð og kostnað, sem aldrei verða sem gæti kannski leitt til þess að aðrar framkvæmdir tefðust. Það má ekki fipa samgönguráðherra, það má ekki tefja hann á nokkurn hátt við það mikilsverða verkefni að hraða sem mest má verða þeim framkvæmdum sem eru í gangi núna.