135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:25]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er þrennt sem ég vil beina athygli að. Það er hvenær þessi ágæta nefnd ætlar að skila af sér. Hún var skipuð fyrir meira en ári og það hefur ekkert komið frá henni enn þá. Reyndar féll Einar Oddur Kristjánsson frá en hann var formaður nefndarinnar en eftir því sem ég best veit hefur bara verið haldinn einn fundur í nefndinni það sem af er þessu ári með nýjum formanni.

Brottkast er að aukast, það vita allir, og það eiga sér stað sóðalegir gjörningar á fiskimiðunum og síðast en ekki síst eru útgerðarfyrirtæki í málaferlum við ríkið út af kvótaálaginu sem var í gangi til margra ára. Það mætti kannski forvitnast um hvað væri að frétta af þeim málum.