135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hafa komið fram fróðlegar upplýsingar frá hæstv. ráðherra. Menn hér á landi ætluðu væntanlega að reyna að bæta sér upp niðurskurðinn í þorski með því að reyna að einbeita sér að veiðum á ýsu og væntanlega hefur fiskvinnslan í landinu líka ætlað að gera það, að reyna að vinna sem mest af aflanum innan lands. Sú aðgerð að aflétta útflutningsálaginu hefur kannski frekar orðið til þess að hráefni innan lands hafi minnkað en ella hefði orðið. Á þeim tímum þegar alltaf er verið að tala um mótvægisaðgerðir þá finnst mér viðeigandi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eða menn á hans vegum sem starfa í þeirri nefnd sem um getur, vilji ekki snúa þessu álagi við og taka upp álag fyrir löndun og sölu á afla innan lands í stað þess að hafa álag á það sem flutt er út, uppbótarálag.