135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:30]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eyddi drjúgum hluta af ræðu sinni í að gera launakjör aðstoðarmanna þingmanna tortryggileg, reyndi að skapa óánægju um þau kjör með skírskotun til starfsmanna Alþingis. Síðan vill hann ekki ræða það frekar. Hann vill ekki útskýra hvað hann átti við með því, hann vill ekki gefa upp neina tillögu um hver hann telur þá að launakjörin eigi að vera til þess að friður yrði um þau. Þetta var mál sem hann tók upp sjálfur, virðulegi forseti, en segist svo, þegar gerð er athugasemd við það og hann spurður hvað hann meini, ekki vilja ræða það.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að þetta er afar ómerkilegur málflutningur. Hv. þingmaður verður, að mínu viti, að venja sig af þessu. Svona geta menn ekki talað. Þingmenn sem svona tala setja niður virðingu þingsins, þeir tala virðingu þingsins niður með því að gera lítið úr ákvörðunum þess, mér heyrðist þingmaðurinn kalla þær geðþóttaákvarðanir. Hvers konar tal er það að kalla ákvarðanir þingsins, hvort sem er forsætisnefndar Alþingis eða meiri hluta Alþingis hér við afgreiðslu fjárlaga, geðþóttaákvarðanir? Menn eru að segja kjósendum að ákvarðanir sem þeir sjálfir taka séu ómerkilegar. Svona eiga þingmenn ekki að tala, virðulegi forseti. Ég fer fram á að hv. þingmaður hugsi þennan málflutning sinn upp á nýtt og falli frá honum framvegis.