135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:22]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þingmenn hafa í dag haldið miklar ræður um grundvallaratriði, og jafnvel eldmessur verið haldnar. Ég vona þó að hv. þingmenn séu ekki búnir að tala úr sér allan hitann því að hér er líka lagt til að rætt sé um grundvallaratriði. Ég vil svo segja það við hv. þm. Ögmund Jónasson og vara hann við því að það er vel hugsanlegt að hér einhvern tímann í dag megi í fordyrum glitta í aðstoðarmenn með möppur og ég lofa honum því líka að þeir verða örugglega jafnglaðlyndir og þeir sem voru hér fyrr í dag og hv. þingmaður reifaði aðeins.

Það frumvarp sem ég mæli fyrir er til laga um breytingu á nokkrum lögum sem varða auðlinda- og orkusvið og er að finna á þskj. 688. Þetta er bandormur sem felur í sér breytingar á alls fimm lögum. Hv. þingmenn þekkja meginatriði þessa frumvarps, þau hafa oft verið rædd í þessum sölum að frumkvæði þingmanna sem hafa óskað eftir því að fá að vita afstöðu ríkisstjórnarinnar til mála sem hafa spunnist út úr því mikla umróti sem varð á orkumarkaði hér á síðasta missiri.

Efni þessa frumvarps má að grófu leyti skipta í þrjá þætti:

Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum verði kveðið á um að opinberum aðilum sé að meginstefnu til óheimilt að framselja varanlega vatns- og jarðhitaréttindi.

Í öðru lagi er líka lagt til að samkeppnis- og sérleyfisþættir í rekstri orkufyrirtækja verði almennt reknir í aðskildum félögum.

Í þriðja lagi er svo kveðið á um það að sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækjanna skuli vera í höndum fyrirtækja sem eru a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.

Að auki er líka lagt til í þessu frumvarpi að felld verði brott ýmis eldri lög á sviði orkumála sem hafa ekki lengur neitt sjálfstætt gildi.

Ég get þess svo líka að í frumvarpinu er lögð til málsmeðferð um það hvernig eigi að efna til reglna sem í framtíðinni varða það með hvaða hætti skuli með tímabundnum hætti heimilað að framselja þær auðlindir sem þetta frumvarp varðar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hafa verið mikil umbrot í orkumálum á þessu síðasta ári eins og við og allur almenningur vitum. Í kjölfar þessa spannst mikil umræða um þörfina á því að skýra leikreglur á orkumarkaði. Sú umræða dró fram þörfina á því að skýra reglur um eignarhald á auðlindum, skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta, veita skýrari tryggingar fyrir óskoruðum forgangi borgaranna að nauðþurftum eins og vatni og orku og sömuleiðis að skýra með hvaða hætti orkufyrirtækin gætu tekið þátt í áhætturekstri, eins og t.d. útrás, án þess að áhætta eigendanna, þ.e. borgaranna sem eru hinir raunverulegu eigendur þessara fyrirtækja, yrði úr hófi. Ég vek eftirtekt á því, virðulegi forseti, að á öllum þessum þáttum er tekið í þessu frumvarpi, einnig þeim síðasttalda sem hefur orðið hvað mest tilefni til umræðna og deilna á þessu ári. Á þetta var t.d. bent í ágætri grein sem hv. þm. Ólöf Nordal skrifaði í Morgunblaðið í dag.

Þessi mál eru hins vegar vandmeðfarin. Ýmis þau réttindi sem um ræðir njóta mikillar verndar í lögum og stjórnarskrá og þess vegna þarf að bera það ákaflega vel saman við stjórnarskrána með hvaða hætti skuli haga skipan þessara mála og það verður að vera algjörlega í gadda slegið að það sem lagt er til af hálfu framkvæmdarvaldsins sé ekki í andstöðu við stjórnarskrána. Í ráðuneytinu brugðum við þess vegna á það ráð að við fengum þann mann sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa sýnt hvað mestan trúnað þegar kemur að stjórnskipulegum efnum, formann stjórnarskrárnefndar sem fyrri ríkisstjórn skipaði og enn situr að störfum, prófessor Eirík Tómasson, til að fara yfir þetta frumvarp með tilliti til stjórnarskrárinnar. Meginniðurstaða hans var sú að ákvæði þess fælu í sér almenna takmörkun í eignarrétti en ekki eignarnám og slík almenn takmörkun á eignarrétti skapaði ekki bótaskyldu eins og rakið er ákaflega vel í álitsgerðinni.

Prófessor Eiríki, formanni sérfræðinganefndarinnar, var sérstaklega falið að skoða hvort það samrýmdist fyrirmælum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar að reisa skorður við framsali sveitarfélaga, fyrirtækja eða stofnana þeirra. Þetta kemur allt fram í álitsgerðinni og þeim parti hennar sem þetta varðar og birtur er í greinargerðinni en niðurstaða hans var í stuttu máli sú að þetta samrýmdist því sem kemur fram í umræddri grein.

Það má segja að sú rökfærsla sem leiddi prófessorinn og formann sérfræðinganefndarinnar að þeirri niðurstöðu sé margþætt.

Í fyrsta lagi verður að telja að þegar sveitarfélög eigi í hlut geti löggjafinn gengið lengra en ella enda sé það gert með almennum hætti og fulls jafnræðis gætt með öllum sveitarfélögum.

Í öðru lagi sé tilgangurinn sá að tryggja til frambúðar aðgang íbúa sveitarfélaganna, raunar landsmanna allra, að auðlindum og þar með orku.

Í þriðja lagi sé um takmarkaðar auðlindir að ræða sem allir þurfi aðgang að til að frumþörfum borgaranna sé sinnt.

Í fjórða lagi, og á það er lögð áhersla, felur takmörkun frumvarpsins aðeins í sér að sveitarfélögin geti ekki framselt auðlindina með varanlegum hætti án þess að þau séu svipt réttinum til að leyfa afnot af þeim til takmarkaðs tíma.

Það er athyglisvert, og ég vek á því sérstaka eftirtekt, að Eiríkur Tómasson prófessor bendir jafnframt á, með vísan til þessara raka sem ég hef hér flutt, að af þessum sökum hafi löggjafinn um langa hríð haft meiri og minni afskipti af meðferð og ráðstöfun sveitarfélaga á auðlindum af þessum toga. Þetta er ákaflega mikilvægt að draga fram í þessari umræðu.

Eins og hefur komið fram í umræðum af minni hálfu við einstaka þingmenn hef ég enga dul dregið á það að ég hafði hug á því í upphafi að láta þetta frumvarp ná til allra fyrirtækja sem með einhverjum hætti væru að hluta til í eigu sveitarfélaga. Frumvarpið eins og það er núna gerir ráð fyrir því að það nái til framsalsréttinda orkufyrirtækja sem eru alfarið í eigu opinberra aðila, þ.e. ég hafði hug á því að fyrirtæki sem kalla má að séu í blandaðri eign mundu líka falla undir þetta. Þar þurfti hins vegar líka enn nánar að skoða hvað stjórnarskráin heimilar.

Prófessor Eiríki var falið sérstaklega að skoða þetta og í álitsgerðinni er fjallað rækilega um það. Þar kemur fram sú skoðun hans að þegar litið sé til sjónarmiða um jafnræði og þeirrar staðreyndar að fyrirhuguð takmörkun á eignarrétti mundi þá væntanlega bitna einungis á einum einkaaðila í raun leikur að dómi prófessors Eiríks umtalsverður vafi á því hvort það samrýmist ákvæðum stjórnarskrár að láta slíka takmörkun ná til fyrirtækja í blandaðri eign. Í ljósi þessa er lagt til að þessar takmarkanir verði einungis látnar ná til fyrirtækja sem alfarið eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga.

Nú hefur þegar komið fram í þessum sölum fyrir skömmu í umræðum milli mín og hv. þingmanna, t.d. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að þeir telji þetta ekki nóg, þeir hefðu kosið að þetta yrði með öðrum hætti. Það hefðu fleiri kosið, en menn deila hins vegar ekki við stjórnarskrána um þetta. Ég hugsa þó að þeir tveir þættir sem ég hef hér rakið, sem tengjast því hvað stjórnarskráin heimilar, hljóti að verða þeir þættir sem hv. iðnaðarnefnd mun skoða hvað gleggst og ég er ekki í nokkrum vafa um að ýmsir þeir lögmenn sem hér eru í hópi alþingismanna kunni að hafa aðrar skoðanir á því. Þetta er það sem ég vænti að menn muni skoða ákaflega vel í nefndinni en ég legg á það ríka áherslu að þó að ég hefði gjarnan viljað sjá þetta frumvarp ganga lengra í þessu efni fór ég eftir því sem sá maður sem við fengum til að skoða þetta af sjónarhóli stjórnarskrárinnar taldi farsælasta niðurstöðu. Varðandi þetta atriði taldi hann einfaldlega að það léki á því umtalsverður vafi að það stæðist og það er af þeim sökum sem ég hef ekki lagt til að þetta nái til fyrirtækja sveitarfélaga sem eru í blandaðri eign.

Í upphafi máls míns gat ég þess að það mætti draga meginstefnuna í þessu frumvarpi saman í þrennt, þ.e. framsal réttinda, aðskilnað og eignarhald á sérleyfisstarfsemi. Hvað varðar framsal réttinda nær þetta frumvarp einungis til réttinda sem eru nú þegar í opinberri eigu og það kemur í veg fyrir varanlegt framsal þeirra. Í ljósi umræðna sem hafa spunnist vil ég segja það alveg skýrt af minni hálfu að ég hef engan áhuga á að taka nokkur réttindi af nokkrum manni sem hefur vörn fyrir þeim og ég hef sagt það alveg skýrt að af minni hálfu hef ég engan vilja til að ríkið ásælist þann hluta orkulindanna sem nú eru í einkaeigu. Í dag er töluverður hluti þeirra í einkaeigu, það kemur t.d. fram í frumvarpinu að það er mat orkumálastjóra hvað háhitalindirnar varðar að 12% þeirra, ef maður tekur saman nýttar og ónýttar, séu í eigu einkaaðila. Það er alveg skýrt að með þessu frumvarpi er ekki verið að stíga skref í þá átt að ríkið ásælist þessi eignarréttindi.

Það er hins vegar eðlilegt að ríkið geti framselt réttindin varanlega til sveitarfélaga og að á sama hátt geti sveitarfélög framselt þau til ríkis eða annarra sveitarfélaga. Jafnframt er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geti framselt orkuauðlindir sínar til félaga sem eru sérstaklega stofnuð til þess að fara með slík réttindi og eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga.

Ef frumvarpið verður að lögum verður ríki og sveitarfélögum einungis heimilt að leigja út afnotarétt að auðlindum sínum. Slík leiga mun einungis takmarkast af þeim almennu reglum sem eru í gildi hverju sinni og síðan jafnframt því sem kemur alveg skýrt fram í þessu frumvarpi, að hámarksleigutími réttindanna er allt að 65 ár. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er líka að finna í þessu frumvarpi það sem við getum kallað leiðbeiningarreglur um þau sjónarmið sem ber að leggja til grundvallar við veitingu afnotaréttar. Það er ákaflega mikilvægt í þessu sambandi.

Í tengslum við þetta vek ég athygli á ákvæði til bráðabirgða um skipan nefndar sem á að setja á stofn til þess að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Þar verður fjallað um ýmis mikilvæg atriði þegar til langs tíma er litið, eins og leigugjald og leigutíma, sömuleiðis hvaða aðgerða er þörf til að tryggja sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skipi þessa nefnd og að hún skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2009. Sömuleiðis vek ég eftirtekt á því að gert er ráð fyrir að forsætisráðherra sé líka falin sú ábyrgð að semja um endurgjald fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins. Þau réttindi geta auðvitað heyrt undir mismunandi ráðherra eftir því á hverju eignatilkall ríkisins byggist. Það hefði alveg eins mátt gefa því gaum hvort það hefði átt að vera hæstv. landbúnaðarráðherra sem hefði átt að fara með þetta vald. Hann fer með ríkisjarðir, og mörg þeirra gæða sem hér er um að tefla falla undir þær. Það hefði sömuleiðis mátt velta fyrir sér hvort iðnaðarráðherra hefði átt að fara með þetta vald með skírskotun til þess sem nú þegar er í lögum. Iðnaðarráðherra er hins vegar falin sú skylda og ábyrgð að setja hvers konar reglur um þessi fyrirtæki, og af þessum sökum var sú leið farin að forsætisráðherra er falið þetta verkefni, ekki síst með vísan til þess að honum er þegar í þjóðlendulögum falið að semja um nýtingu þessara réttinda.

Aðskilnaðarregla frumvarpsins kom töluvert til umræðu á mánudaginn þegar við ræddum raforkuskýrsluna sem ég lagði fyrir þingið. Varðandi aðskilnaðarreglu frumvarpsins vil ég nefna að hún er m.a. í samræmi við ábendingar Samkeppniseftirlitsins sem hefur fjallað um að það þurfi að setja skýrari mörk milli sérleyfis- og samkeppnisrekstrar í starfsemi raforkufyrirtækja. Svipaðar ábendingar hafa komið fram frá öðrum aðilum, t.d. hafa Samtök iðnaðarins ítrekað sett fram tilmæli og ábendingar af þessu tagi. Sum raforkufyrirtækjanna hafa þegar stigið skref í þessa átt og má í því sambandi t.d. benda á Rarik. Það er líka rétt út af umræðunum sem við áttum hér, t.d. ég og hv. þm. Guðni Ágústsson á mánudaginn, að Samkeppniseftirlitið vill ganga lengra en felst í því skrefi sem tekið er með fyrirtækjaaðskilnaði. Það telur réttast að ná fram fullum aðskilnaði eigenda. Í sama streng — og það vakti eftirtekt mína — tók formaður Framsóknarflokksins í umræðunum á Alþingi fyrr í vikunni.

Þessi aðskilnaðarregla er auðvitað sett fram til að auka samkeppni sem að lokum á að leiða til þess að hagur bæði fyrirtækja en ekki síst neytenda vænkist. Við fórum vel yfir það, ég og hv. þingmenn sem ræddum hér efni raforkuskýrslunnar á mánudaginn, að eitt af því sem skortir á orkumarkaðnum á Íslandi er aukin samkeppni. Það er hins vegar alveg ljóst að sumir telja þennan aðskilnað leiða til aukins kostnaðar og kunna þess vegna að hafa neikvæð áhrif á samkeppnina. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmönnum að þetta voru rök sem komu mjög sterklega fram þegar forveri minn í embætti lagði fram frumvarp sitt sem varð að lögum 2003. Þá var því haldið fram, sérstaklega af orkufyrirtækjum hér í dreifbýlinu, að kostnaðurinn mundi aukast mjög mikið og mundi leiða til þess að orkuverð í þéttbýlinu mundi hækka. Þegar við skoðum hins vegar staðreyndir málsins kemur í ljós að þetta hefur ekki átt við rök að styðjast.

Það kom mjög skýrt fram í raforkuskýrslunni sem ég lagði hér fram og við ræddum í vikunni að raforkuverð á þéttbýlissvæðinu hefur þvert á móti lækkað. Auðvitað er hægt að benda á dæmi, og kannski fullmörg á sumum stöðum landsins, að raforkuverð í dreifbýlinu hafi hækkað. Það er hins vegar rétt að undirstrika að að meðaltali hefur hækkunin í dreifbýlinu verið 2–6%, þ.e. undir breytingum á verðlagsvísitölu. Samt sem áður er það þannig að ég hef hlustað á rök frá ýmsum smærri orkufyrirtækjunum sem hafa talið að það væri erfitt fyrir þau að laga sig að þessari reglu og til þess að koma til móts við sérstaka stöðu smærri orkufyrirtækja er lagt til að þessi regla nái einungis til þeirra orkufyrirtækja sem hafa árlegar rekstrartekjur umfram 2 milljarða kr. Það þýðir að litlu orkufyrirtækin, eins og Orkubú Vestfjarða, sem öll er að finna úti á landsbyggðinni eru undanþegin því sem þarna kemur fram.

Aðskilnaðarreglan felur í sér að fyrirtækjum í sérleyfisstarfsemi verður ekki heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem þeim er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt leyfum og lögum þar að lútandi. Þetta er ákaflega mikilvægt og er beinlínis svar við þeim umræðum sem hafa farið fram um það með hvaða hætti orkufyrirtæki eigi að hafa heimild til að leggja fé í áhættusamar fjárfestingar. Hins vegar er líka gert ráð fyrir að stjórnir þessara fyrirtækja, þ.e. sérleyfisfyrirtækjanna, séu sjálfstæðar gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku. Þetta eru sambærilegar reglur eða ættu að vera sambærilegar reglur og gilda í dag um starfsemi og stjórn Landsnets. Ég vil líka út af fyrirspurnum og umræðum sem hér hafa orðið leggja á það mikla áherslu að þetta frumvarp, ef að lögum verður, útilokar ekki að öll sérleyfisstarfsemi sé rekin í einu og sama fyrirtækinu. Þróunin hefur verið sú, sérstaklega hjá stærri fyrirtækjum sem sveitarfélögin eiga, að þau hafa tekið saman ýmiss konar starfsemi af þessu tagi og rekið hana í sama fyrirtæki. Þetta frumvarp kemur ekki í veg fyrir það.

Af því tilefni og vegna þessara orða minna er kannski rétt að vekja sérstaklega athygli á 3. gr. frumvarpsins. Í henni er gengið út frá því að samkeppnisfyrirtæki sé heimilt að starfrækja jarðvarmaorkuver sem vinnur bæði raforku og sinnir líka framleiðslu á heitu vatni til húshitunar. Til að tryggja hagsmuni hitaveitu í slíkum tilvikum er lagt til að það verði kveðið á um skyldu slíks vers til að afhenda varmaorku. Ég veit að þeir hv. þingmenn sem hafa kynnt sér mjög vel málefni raforkumarkaðarins vita að í 41. gr. raforkulaga er nú þegar að finna ákvæði um slík orkuver og uppskiptingu kostnaðar á milli raforku- og hitaveituþátta og í þessu frumvarpi, eins og kemur fram í viðkomandi textagrein, er lagt til að það ákvæði verði lagt til grundvallar þessu.

Þetta er auðvitað töluvert mikil breyting. Eins og menn muna var rekið upp ramakvein af hálfu orkumarkaðarins þegar fyrsta skrefið að þessum aðskilnaði sem ég er hér að reifa var stigið í tíð fyrri ríkisstjórnar. Miklar mótbárur komu fram, því var haldið fram að kostnaðurinn við það væri mjög mikill og eins og ég hef þegar rakið töldu forsvarsmenn orkufyrirtækja á suðvesturhorninu að þetta gæti ekki nema leitt til þess að verðið hækkaði. Það hefur ekki gerst eins og ég reifaði áðan. Það sem við erum hér að gera varðandi þessa aðskilnaðarreglu er að stíga eitt skref til viðbótar við það sem tekið var að þessu leyti, þegar bókhaldslegi aðskilnaðurinn var tekinn upp í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Auðvitað er um töluverða breytingu að ræða og fyrirtækjunum þarf að gefast ráðrúm til að aðlagast þessu breytta fyrirkomulagi. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að ákvæði sem varða aðskilnaðinn komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 2009. Ég tel að þannig ætti eigendum fyrirtækjanna og stjórnendum að gefast ráðrúm til í fyrsta lagi að taka nauðsynlegar ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag og í öðru lagi hrinda þeim í framkvæmd. Það getur vel verið að þegar nefndin skoðar þetta komist hún að annarri niðurstöðu. Ég segi bara að við þurfum í þessum efnum að hlusta mjög vel á þarfir fyrirtækjanna og ég tel að ég hafi gert það með þessari dagsetningu, en þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða rækilega. Þarna er um ákveðið breytingaskeið að ræða og það er sannarlega minn vilji að gefa fyrirtækjunum ráðrúm til að aðlagast þessu breytta fyrirkomulagi.

Þá er líka lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki þar sem m.a. verði skoðað hvort hægt sé að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Þetta verður líka að gera í samráði við þá sem fara með eignarhald í þessum fyrirtækjum. Ég tel að þessari vinnu þurfi að ljúka sem fyrst og það væri auðvitað heppilegt ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki þyrftu að gilda sérstök lög um hvert og eitt orkufyrirtæki eins og staðan er í dag.

Að því er varðar eignarhald á sérleyfisstarfsemi er í frumvarpinu gerð tillaga um að í raforku- og orkulögum verði kveðið alveg skýrt á um að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi, þ.e. Landsnet, dreifiveitur og hitaveitur, verði a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila. Það má segja að andinn í þessu ákvæði sé sóttur til laga um vatnsveitur sveitarfélaga þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn sé heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi samkvæmt þeim lögum. Ákvæðið er þess vegna mjög í anda vatnsveitulaganna en þó er gerð krafa um aukinn meiri hluta. Það er gert til að tryggja að hinir opinberu eigendur fyrirtækjanna hafi á bak við sig þann meiri hluta sem þarf til að taka allar meiri háttar ákvarðanir.

Að því er varðar það sem ég sagði í upphafi máls míns og vakti athygli hv. þingmanna á er að líka er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að ýmis eldri lög falli brott. Þar er um að ræða lög sem geyma heimildir ráðherra, t.d. til að reisa og reka virkjanir. Þessi lög má rekja til þess tíma þegar Alþingi veitti virkjanaleyfi. Í mörgum tilvikum var þetta gert með þeim hætti að Alþingi framseldi valdið til að gefa út virkjanaleyfi vegna einstakra virkjana, en nú er í raforkulögum kveðið á um að iðnaðarráðherrann veiti leyfi til að reisa og reka virkjanir. Þessi lög sem þetta varða hafa því ekki sjálfstætt gildi lengur og þess vegna er lagt til að þau verði felld brott.

Ég tel raunar, frú forseti, að sá lagarammi sem hér er lagður fram eigi að nægja sem heildarlög fyrir markaðinn allan. Ég tel að í framtíðinni verði ekki þörf á sérstökum lögum fyrir hvert og eitt orkufyrirtæki eins og er í dag og það má segja að þessi partur frumvarpsins sé í stíl við þá stefnu ríkisstjórnarinnar sem nefna má „einfaldara Ísland“ því að hér er auðvitað um lagahreinsun að ræða.

Frú forseti. Með þessu frumvarpi legg ég af hálfu ríkisstjórnarinnar það til að eignarhald orkuauðlindanna verði áfram eins og það er í dag hvað varðar opinbera eigu og um leið er þannig búið um hnúta að möguleikar orkufyrirtækjanna til að nýta orkulindir sínar á ábyrgan hátt eru á engan hátt skertir.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar og 2. umr.