135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að innan Evrópusambandsins hafa menn þráast við og viljað ganga lengra inn á þessa braut, jafnvel þótt hún sýni að aðferðin hafi ekki gengið upp. Það eru endalaus mál fyrir dómstólum, fyrir samkeppnisyfirvöldum. Gasfyrirtækin og raforkufyrirtækin eru sökuð um fákeppni vegna þess að þeir samkeppnisþættir sem hv. þingmaður vísar til hafa ekki verið til staðar. Þar hefur ekki verið um raunverulega samkeppni að ræða. Ég er talsmaður þess að við leggjum rækt við þann arf sem við byggjum á hér á Íslandi sem hefur reynst okkur ágætlega, þ.e. samvinnuna.

Ég spyr: Hvað er það sem hv. þingmaður sér að einkafjármagnið geti komið með inn í þennan geira sem við í sameiningu, á vegum sveitarfélaga eða ríkis, erum ófær um að gera? Á þessu sviði hafa orðið stórstígar framfarir á undanförnum árum og áratugum. Við höfum öll lagst sameiginlega á árarnar og virkjað hugvitið og það hefur gengið bærilega. Við höfum deilt um í hvaða framkvæmdir ætti að ráðast. Það er allt annar handleggur. Við höfum á þessum grundvelli náð að skapa mikla þekkingu og reynslu, mannauð. Það höfum við gert saman.

Hverju sækjast menn eftir hjá einkaframtakinu sem við höfum ekki? Vantar peninga? Vantar peninga inn í Orkuveitu Reykjavíkur? Eru það peningar sem menn sækjast eftir? Það fjármagn sem kæmi þarna til sögunnar mundi fyrst og fremst gera kröfu um arð út úr fyrirtækinu. Til þess eru peningarnir settir í það. Er það til hagsbóta fyrir okkur neytendur? (Forseti hringir.) Er það gert fyrir okkur? Hverju sækjast menn eftir?