135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

jarðgöng á Miðausturlandi.

[15:25]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég ekki að blanda mér inn í málefni Framsóknarflokksins og síðustu ríkisstjórnar hvað þetta varðar, sá tími er liðinn. Ég get heldur ekki, virðulegi forseti, svarað fyrir orð hv. þm. Ólafar Nordal. En ég skal fúslega svara mönnum um samgöngumál á Austurlandi.

Ég get með glöðu geði sagt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók sig til og flýtti fyrirhuguðum framkvæmdum við Norðfjarðargöng heldur betur þannig að þær framkvæmdir eiga að geta hafist um mitt næsta ár. Útboðsferill getur vonandi hafist fljótlega á næsta ári og er reyndar þegar byrjaður. Ég átti ágætisfund með fulltrúum Vegagerðarinnar í Fjarðarbyggð og á Reyðarfirði 6. febrúar síðastliðinn þar sem rætt var um alla þá undirbúningsvinnu. Þessu hefur sem sagt verið flýtt þannig að framkvæmdir geta hafist á næsta ári.

Hvað varðar hina stóru hugmynd um frekari jarðgöng, þ.e. í Mjóafjörð og Seyðisfjörð og upp á Hérað þá vil ég segja það að á vegum sveitarfélaganna þriggja, þ.e. Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs, hafa bæjarstjórar sveitarfélaganna unnið ákveðna undirbúningsvinnu og fengu til þess fyrirtækið Línuhönnun. Þar hefur líka verið haldinn ágætisfundur þar sem m.a. fulltrúar ríkisstjórnarinnar bættust inn í þann vinnuhóp, þ.e. hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Ég bíð jafnspenntur og aðrir eftir niðurstöðu úr þeirri athugun sem þarna fór í gang að frumkvæði sveitarfélaganna og er á frumkvæði sveitarfélaganna.