135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi gera athugasemdir við í annars ágætri ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar sem hefur gert ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu og ekkert er við það að athuga. Það er ljóst að hann hefur ekki fallist á það samkomulag sem liggur til grundvallar frumvarpinu og skýrir tilurð þess máls.

Bara til örstuttrar upprifjunar má nefna að þegar rætt er um aðdragandann að þessu máli og tilurð þess — það tengist auðvitað því sem nefnt hefur verið varðandi vinnubrögð í nefndinni — er þetta mál óvenjulegt að því leyti að áður en það kom til þingnefndar hafði það fengið töluverða umfjöllun á vettvangi þingsins í forsætisnefnd og meðal þingflokksformanna og bar að með öðrum hætti og hafði meiri aðdraganda innan þingsins en títt er um frumvörp.

Ég vil einnig nefna, og það snertir ummæli hv. þingmanns um aðgerðir til að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar, að það er rétt að einungis hluti þessa máls sem við ræðum hér snertir stuðning við hana sérstaklega, þ.e. spurningin um það hvort heimila eigi ráðningu sérstakra aðstoðarmanna formanna stjórnarandstöðuflokkanna. En á það ber að líta að önnur skref hafa verið stigin innan þings með auknum fjárveitingum til stjórnmálaflokkanna og þar á meðal sérstaklega til stjórnarandstöðuflokkanna sem fengu við afgreiðslu síðustu fjárlaga aukið fjármagn miðað við stjórnarflokkana. Reglum um skiptingu fjár var breytt að því leyti. Síðan hefur stjórn þingsins líka lagt upp með breytingar á fjölda starfsmanna á nefndasviði sérstaklega til að vera stjórnarandstöðuþingmönnum í nefndum innan handar.