135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:49]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Magnússon talar um að sá stuðningur sem ætlaður sé til þingmanna landsbyggðarkjördæmanna þriggja renni fremur til stjórnarflokkanna en til stjórnarandstöðuflokkanna og það er rétt enda eru þingmenn stjórnarflokkanna miklu fleiri en þingmenn stjórnarandstöðunnar. Sú varð niðurstaða lýðræðislegra kosninga og við breytum því ekki í þessu samhengi.

Eins og ég gerði grein fyrir er málið tvíþætt. Annars vegar er um að ræða stuðning við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, þeir fá aðstoðarmenn. Hinn hluti málsins er aukin aðstoð við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna þriggja og ræddum við það atriði töluvert. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir því megi færa málefnaleg rök að vegna aðstæðna, þar sem þingmenn þurfa oft að verja mjög miklum tíma til ferðalaga innan kjördæma, sé rétt að koma til móts við þá með þeim sérstaka hætti sem gert er ráð fyrir af hálfu forustu þingsins og endurspeglast í frumvarpinu og greinargerð með því. Það eru málefnaleg rök sem að mínu mati eru jafngild og ýmis önnur rök sem færa má fyrir því að bjóða þingmönnum með einhverjum hætti upp á mismunandi aðstæður.

Ég veit hins vegar að þegar málið var til umfjöllunar í allsherjarnefnd komu líka upp sjónarmið í umræðum um að þörf væri á að auka stuðning við þingmenn almennt og þá einnig þeirra þriggja kjördæma sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Skýrt ákvæði er um það í nefndaráliti þar sem forsætisnefnd þingsins er hvött til að hefjast þegar handa við að útfæra slíkar aðgerðir. En það er mín skoðun að óskaplega langt sé seilst að telja að þær ráðstafanir sem hér eru í bígerð gangi gegn jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.