135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu, eins og það var við 1. umr., var almennt sagt í texta að alþingismanni væri heimilt að ráða sér aðstoðarmann og að greiðslur til hans ættu að fara eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setti og veitt væri á fjárlögum á hverju ári, ekkert meira, þannig var frumvarpið þegar það kom inn.

Í umræðum í allsherjarnefnd var þetta rætt mjög mikið. Sumum þingmönnum finnst frumvarpið óréttlátt — landsbyggðarþingmenn fá aðstoðarmenn en ekki þingmenn af höfuðborgarsvæðinu — og telja að frumvarpið eigi ekki að bjóða upp á slíka mismunun.

Allsherjarnefnd setur því fram tillögu að breytingu á þessari lagagrein og hún hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Í reglum forsætisnefndar má kveða á um að heimildin sé bundin tilteknum kjördæmum eða tiltekinni stöðu sem alþingismaður hefur í flokki sínum.“

Allsherjarnefnd skýtur því þarna inn að forsætisnefnd geti ákveðið að heimild til að ráða sér aðstoðarmenn gildi um þingmenn úr tilteknum kjördæmum, þ.e. landsbyggðarkjördæmunum, eða í tiltekinni stöðu, t.d. sem formaður stjórnarandstöðuflokks. Ef þetta verður samþykkt telur meiri hlutinn í nefndinni að kveðið hafi verið upp úr um það að forsætisnefnd hefur heimild til að velja úr hópi þingmanna, hvort sem mönnum finnst það óréttlátt eða ekki, að með þessum breytingum standist það jafnræðisregluna.